„Áhuginn á Íslandi er sannarlega til staðar og ímynd okkar er mjög jákvæð,“ segir Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair.
Í nýjustu mælingum félagsins á lykilmörkuðum var fólk spurt hvert það vildi helst ferðast miðað við aðstæður sökum faraldurs kórónuveirunnar. „Þá lenti Ísland oftast í einu af þremur efstu sætunum,“ segir Birna í Morgunblaðinu í dag.
Fyrirtækið Pollstat gerði könnun fyrir félagið í Noregi og sýndi hún að 65% töldu Danmörku vera öruggasta áfangastaðinn utan Noregs. Þar á eftir kom Ísland með 54% svarenda og svo Finnland með 44%.
„Það sem við erum að fljúga gengur mjög vel. Við erum með ágætisnýtingu á sætum og fólk mætir í flug. Á meðan allt var lokað var fólk með bókanir en kom ekki.“