Gera má ráð fyrir tveimur hraðhleðslustöðvum til viðbótar á þjónustustöð N1 í Lindum í Kópavogi. Fyrir eru tvær 50kW hraðhleðslustöðvar við þjónustustöðina en nú er ljóst að fleirum verður bætt við.
Þetta segir Þyrí Dröfn Konráðsdóttir, markaðsstjóri N1, í Morgunblaðinu í dag. Að sögn hennar hefur stöðvunum verið mjög vel tekið. Þá hefur fjöldi viðskiptavina lýst yfir mikilli ánægju með uppsetninguna.
„Við byrjuðum á að setja niður tvær stöðvar, sem var risastórt skref fyrir okkur. Í kjölfarið fengum við alveg frábærar viðtökur og í raun framar björtustu vonum. Við munum síðan fjölga í samræmi við það sem þörf er á,“ segir Þyrí og bætir við að nú geti viðskiptavinir í vildarkerfi N1 nýtt sér þjónustuna. Þannig geti þeir nú notast við greiðslumöguleika fyrirtækisins. „Við erum með um 70 þúsund manns í kerfinu hjá okkur og nú geta þessir aðilar greitt á hraðhleðslustöðvunum með N1-korti eða lykli,“ segir Þyrí í blaðinu.