Starfsfólk Faxaflóahafna er á varðbergi vegna fregna af því að sóttvörnum hafi hugsanlega verið ábótavant um borð í súrálsskipinu Seaboss, sem nú er við höfn í Grundartanga.
Þetta staðfestir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, í samtali við mbl.is.
„Ég þekki ekki málið nema ég veit það var gripið til einhverra ráðstafana um einangrun,“ segir Gísli, en að öðru leyti sé málið á borði sóttvarnalæknis og almannavarna. „Við hins vegar erum mjög á varðbergi með okkar lið þegar við fréttum af því að þetta væri svona.“
Brottför skipsins er áætluð á morgun og segir Gísli starfsfólk Faxaflóahafna raunar ekki hafa aðkomu að því fyrr en þá. „Undir venjulegum kringumstæðum þá færi hafnsögumaður um borð, en ég veit ekki hvernig við förum með það. Það getur verið að við verðum með einhverja viðbótarvarúð.“
„Já, þetta virðist ekki vera alveg á hreinu. Það er eitthvað sem rétt yfirvöld þurfa að útkljá,“ segir Gísli spurður hvort Faxaflóahafnir hefðu heyrt af því að smitvörnum hafi verið ábótavant um borð.
Samkvæmt Jóhanni K. Jóhannssyni, samskiptastjóra almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, rataði mál súrálsskipsins Seaboss ekki sem slíkt inn á borð almannavarna. Öllu heldur tengist málið áhafnaskiptum á skipinu og reyndist þá einn skipverja hafa fengið jákvætt svar eftir sýnatöku fyrir kórónuveirunni. „Almannavarnir hafa engar upplýsingar um hvort sóttvörnum skipsins hafi verið ábótavant.“