Íslendingar fjölmenna á tjaldsvæði

Tjaldsvæði landsins virðast koma ágætlega undan vetri þótt erlendum ferðamönnum hafi fækkað gríðarlega milli ára, að sögn nokkurra aðila sem reka tjaldsvæði víða um land. Umferðin í ár hefur komið sumum á óvart þar sem Íslendingar hafa í auknum mæli haldið í innanlandsferðalög, á meðan aðrir segja að sumarið hafi verið rólegt.

„Það er ágætt að gera, það vantar auðvitað alla erlenda ferðamenn, en það hefur samt verið meira að gera en við höfðum gert ráð fyrir,“ segir Lísa Margrét, skálavörður á Básum í Goðalandi, í samtali við mbl.is.

„Um helgar hefur verið upp undir 500 manns, eins margir og við getum tekið á móti, svo við höfum þurft að vísa fólki frá.“ Hún segir að Íslendingar séu að taka við þeim straumi erlendra ferðamanna sem hefur borist til landsins síðustu ár.

Íslendingar skemmtilegri en áður

Drífa Björk Linnett, eigandi Hraunborgar Lava Village, segir að það sé töluvert meira að gera á tjaldsvæðinu heldur en í fyrra.

„Í fyrra komu rosa sprengjur um helgar, en það er búið að vera þannig alla daga í sumar. Það kemur aldrei sprengja, allir dagar eru eins og helgarnar voru í fyrra. Mánudagar og þriðjudagar eru eins og góðir laugardagar síðasta sumar,“ segir Drífa.

Hún segist þá hafa tekið eftir breytingu í viðmóti Íslendinga í sumar. „Það er sem ég tek mest eftir er viðmót Íslendinga, þeir eru orðnir rólegri, jákvæðari og skemmtilegri.“

Mynd/Unnar Bergþórsson

Ekki hafa öll tjaldsvæði tekið eftir aukningu í gestagangi. Sigurveig Gunnlaugsdóttir sem rekur tjaldsvæðið á Þórisstöðum segir að það hafi verið mjög litið að gera í ár miðað við síðasta sumar.

„Það var rosalega mikið af erlendum ferðamönnum í fyrra, en við vorum líka með fullt tjaldsvæði af Íslendingum.“ Hún segir að tjaldsvæðið á Þórisstöðum skiptist í þrjú svæði, og að minnsta kosti eitt þeirra hafi yfirleitt verið fullt af Íslendingum. Í ár hafi gestirnir hins vegar ekki skilað sér.

Ferðaþyrstir eftir skammdegið

Sumarið hefur farið nokkuð vel af stað á Húsafelli, að sögn Unnars Bergþórssonar, umsjónarmanns. „Júní fór mjög vel af stað og það var nokkuð fullt flest allar helgar í júní og í byrjun júlí, en síðustu tvær helgar hafa verið rólegar sökum þess að veðurspáin var frekar óhagstæð,“ segir Unnar.

Hann telur að það gestir í ár séu að minnsta kosti 30% færri heldur en síðasta sumar. Umferðin hafi þó verið í takt við væntingar.

„Við áttum von á því að það yrði ágætt að gera á tjaldsvæðum. Íslendingar eru ferðaþyrstir eftir skammdegið og veiruna og allt það, og svo lengi sem veðurspáin er þokkaleg eru tjaldsvæðin nokkuð full.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert