Staða Íslands snarbatnar eftir uppfærslu

Búið er að uppfæra tölur Sóttvarnastofnunar Evrópu í samræmi við …
Búið er að uppfæra tölur Sóttvarnastofnunar Evrópu í samræmi við beiðni Landlæknisembættisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sóttvarnastofnun Evrópu hefur uppfært tölur um fjölda nýrra virkra smita kórónuveirunnar hér á landi, í samræmi við breytingar sem almannavarnir gerðu á framsetningu talnanna á covid.is í fyrradag. Nýgengi veirunnar er nú sagt 2,0 í stað 18,8 í gær.

Með nýgengi er átt við fjölda smita sem greinst hafa síðustu 14 daga á hverja 100.000 íbúa. Sóttvarnastofnunin safnar slíkum tölum saman frá öllum Evrópuríkjum, sem nota þau síðan við ákvörðun um sóttvarnaráðstafanir ferðamanna og ferðaráð til eigin íbúa.

Greint var frá því í gær að ein­stak­ling­ar sem grein­ast með kór­ónu­veiruna við kom­una til lands­ins, en reyn­ast síðar hafa myndað mót­efni fyr­ir veirunni og ekki verið með virk smit, hefðu áður verið taldir með í fjölda virkra smita á covid.is en það yrði nú ekki lengur gert. Var það rökstutt með því að sú framsetning væri réttari enda hefðu umræddir aldrei verið með virkt veirusmit á Íslandi.

Fram kom á blaðamannafundi almannavarna í gær að embætti landlæknis hefði farið þess á leit við Sóttvarnastofnunina að hún uppfærði tölur sínar í samræmi við breytingarnar, og hefur það nú verið gert.

Meðan gamla aðferðin var enn við lýði kom Ísland ekki sérstaklega vel út í evrópskum samanburði á stöðu veirunnar. Þannig taldist í gær nýgengi sjúkdómsins sem fyrr segir 18,8 sem skipaði Íslandi í flokk með Bretlandi (14,1) og Spáni (18,0). Eftir breytinguna er Ísland hins vegar í 5. sæti yfir þau lönd þar sem nýgengi er minnst, en deilir að vísu sætinu með Eistlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert