Um 250 manns hafa fengið staðfestingu yfirvalda á því að Útlendingastofnun álíti skilyrði uppfyllt til að hægt sé að veita þeim undanþágu frá ferðatakmörkunum einstaklinga frá ríkjum utan EES og EFTA til Íslands.
Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins. Tekið er fram að starfshópur á vegum ráðuneytisins, sem skipaður sé starfsmönnum þess, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins og Íslandsstofu, fari yfir þær fyrirspurnir sem berist varðandi undanþágu vegna brýnna erindagjörða einstaklinga frá ríkjum utan EES og EFTA, „sem þurfa nauðsynlega að ferðast vegna starfa sem teljast efnahagslega mikilvæg og störf þeirra geta ekki verið framkvæmd síðar eða erlendis“, eins og segir í svarinu.
Starfshópurinn hefur verið starfræktur síðan í maí en frá 15. júní hefur ráðuneytið tekið við vel á annað þúsund fyrirspurna, sem flestar varði lokanir landamæra.