Tímabili lúsmýsins er ekki lokið, að sögn meindýraeyðis, og hefur komum á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna bita fjölgað frá síðasta ári, að sögn forstjóra heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Þrátt fyrir það segir Steinar Smári Guðbergsson meindýraeyðir að hann hafi orðið minna var við lúsmýið þetta árið en áður. Orsökin er tvíþætt, að mati Steinars. Annars vegar hafi verið kalt í byrjun sumars og því séu líkur á að lúsmýið hafi átt erfiðara uppdráttar en áður. Hins vegar séu Íslendingar farnir að venjast óværunni og líkamar Íslendinga sömuleiðis sem sýni nú minni ofnæmisviðbrögð en áður.
Steinar segir að lúsmýið sé ekki horfið, fyrsta „holli“ sé einfaldlega lokið en hollin séu oftast tvö til þrjú yfir sumartímann.
„Lúsmýið er að alla vega fram að mánaðamótum ágúst/september. Þetta er ekki búið núna. Fyrsta hollið er alltaf verst en því holli er lokið. Svo kemur annað holl, þetta er eins og það séu tvær til þrjár kynslóðir sem komist upp á sumrin. Lúsmýið ræðst á okkur og drekkur úr okkur blóð svo það geti verpt,“ segir Steinar í Morgunblaðinu í dag.