Frítekjumarkið úr þreföldu í fimmfalt

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur ákveðið að hækka frítekjumark þeirra sem koma af vinnumarkaði og inn í skólakerfið úr þreföldu í fimmfalt fyrir skólaárið 2020-2021. Nýjar úthlutunarreglur með Menntasjóði námsmanna voru birtar síðdegis í dag í stjórnartíðindum. 

Í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu kemur fram að tilgangur þessarar breytingar sé að koma til móts við námsmenn sem koma af vinnumarkaði vegna sérstakra aðstæðna á árinu 2020. Aukinn kostnaður vegna þessa er áætlaður um 400 milljónir króna.

„Mikilvægi öflugs menntakerfis hefur sannað sig margfalt á síðustu misserum. Stjórnvöldum ber skylda til að tryggja jafnrétti til náms ásamt því að minnka atvinnuleysi og halda samfélaginu virku. Nýr Menntasjóður tryggir betri kjör fyrir námsmenn, sanngjarnara námslánakerfi og er risastórt framfaraskref fyrir íslenska námsmenn“, er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur í tilkynningu. 

Fyrstu úthlutunarreglur Menntasjóðs námsmanna hafa verið birtar í Stjórnartíðindum.

Lög um sjóðinn tóku gildi 1. júlí síðastliðinn. Með þeim var ábyrgðarmannakerfið afnumið ásamt því að festa í lög meðal annars 30% niðurfærsla á höfuðstól námsláns og barnastyrk fyrir foreldra í stað barnaláns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert