Tilkynnt hefur verið að hönnun nýja Herjólfs hafi hlotið svonefnd Shippax-verðlaun fyrir hönnun minni ferja.
Í rökstuðningi er vakin athygli á því að hönnun skili sér í skipi sem auðvelt sé að stjórna við mjög erfiðar aðstæður gegn opnu hafi og í siglingu inn í grunna Landeyjahöfn, þar sem búast megi við háum öldum og hörðum straumum. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Vegagerðarinnar. Afhenda átti verðlaunin á ráðstefnu í apríl en það frestast fram í september vegna Covid-19, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Það er Jóhannes Jóhannesson hjá JJohannesson ApS sem hlýtur hönnunarverðlaunin ásamt skipasmíðastöðinni CRIST S.A. í Póllandi og Vegagerðinni sem eiganda Herjólfs. Shippax-tímaritið, sem veitir verðlaunin, sérhæfir sig í umfjöllun um ferjur, skemmtiferðaskip og bílferjur. Tímaritið, sem er með höfuðstöðvar í Halmstad í Svíþjóð, hefur verið gefið út í áratugi. sisi@mbl.is