Yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir nauðsynlegt að tryggja að fólk komist úr miðbænum eftir að skemmtistöðum er lokað til þess að koma í veg fyrir hópamyndun. Verði afgrieðslutími rýmkaður fram yfir miðnætti verði að tryggja akstur næturstrætós.
Þetta kom fram í máli Karls Steinars Valssonar á upplýsingafundi almannavarna.
Karl Steinar sagði fyrirséð að næstu tvær helgar yrðu áskorun fyrir lögreglu, bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu, en með tilkomu mikils samráðs við rekstraraðila staða þar sem búast má við að fólk hópi sig saman væri ekki annað að sjá en að mikill vilji væri til þess að fylgja reglum um fjöldatakmarkanir og afgreiðslutíma.
Hann segir lögregluna tilbúna í verkefnið, en brýnir jafnframt fyrir fólki að fylgja reglum.
Sýn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er að verslunarmannahelgin verði með hefðbundnu sniði, þar sem lögregla muni fylgja umferð til og frá höfuðborginni og auka þunga í eftirliti í hverfum.
Þá sé miðborgin sérstakt verkefni og áskorun, þar sem reglur sem kveða á um að öllum stöðum sé lokað á sama tíma skapi hættu á hópamyndun. Lögreglan leggur áherslu á mikilvægi þess að fólk komist úr bænum til að hópar myndist síður, bæði með almenningssamgöngum og leigubifreiðum.
Strætó hætti næturakstri snemma í kórónuveirufaraldrinum og segir Karl Steinar að ekki hafi verið uppi á borðum að hefja akstur hans aftur. Hins vegar verði að eiga sér stað gott samtal við borgina um hvernig taka megi næstu skref. Næturstrætó verði að ganga ef fara eigi í frekari tilslakanir til að koma fólki úr bænum og koma í veg fyrir hópamyndun.