Nauðsynlegt að opna raforkusamninga

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leynd raforkusamninga milli Landsvirkjunar (LV) og Rio Tinto (RT) hamlar því að vitræn umræða geti átt sér stað um stöðu fyrirtækisins hér á landi. Stóriðja í Evrópu á undir högg að sækja og Ísland er þar engin undantekning. Önnur tækifæri til raforkusölu kunna þó að leynast handan við hornið. Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra.

Mbl.is leitað viðbragða hennar vegna kæru RT til Samkeppniseftirlitsins sem tilkynnt var í gær. Þórdís segir það að RT krefjist skoðunar eða rannsóknar á þeirri forsendu að LV fylgi ekki reglum koma frekar á óvart. Samtal hefur verið á milli þessara aðila um mögulega endurskoðun á þessum samningum, en úr því að RT taki þessa ákvörðun „verður það að fara sína leið“.

Áliðnaður í Evrópu í kröppum dansi

Þórdís rekur að almennt séu horfur í álframleiðslu ekki bjartar, ekki bara á Íslandi, heldur í Evrópu sem heimsálfu. Framleiðslan hafi að verulegu leyti flust til Kína, þar sem mengun af framleiðslu sé margföld á við það sem hún sé hér á landi og þar spili menn eftir öðrum leikreglum. Hún bendir á að RT hefur lokað eða selt öll sjö álver sín í Evrópu, nema hér á landi.

Hótun um lokun?

Þórdís segir að þó að fyrirtækið sé ekki að tilkynna um lokun, þá sé „það gefið í skyn að það sé næsta skref ef kröfum er ekki mætt, sem auðvitað yrði mikið áfall“. Hún segir að margir starfsmenn og fjölskyldur þeirra, sem og fyrirtæki í afleiddri starfsemi, hafi áhyggjur, en tekur fram að „auðvitað viljum við halda í þau fyrirtæki sem veita fjölda starfsmanna vinnu“ og að „Rio Tinto er mjög mikilvægur viðskiptavinur Landsvirkjunar“.

Arðsemiskrafa af stóriðju

„Það þarf að gera eðlilegar kröfur um að það skili einhverju þegar við erum að virkja og selja til einstakra viðskiptavina,“ segir Þórdís um arðsemiskröfu af raforkusölu. Landsvirkjun hefur í kjölfar kórónuveirufaraldursins veitt afslátt til stórnotenda, en „ég sem ráðherra hef ekki heimild til að gefa skipun um að LV fari undir kostnað“. Hún ítrekar að stjórn LV sé sjálfstæð og segist bera fullt traust til forstjóra LV.

Aðrir kostir til raforkusölu

Aðspurð um aðra kosti til sölu á raforku bendir Þórdís á að raforkumagnið sem RT notar til sinnar framleiðslu sé mikið og ekki margar tegundir framleiðslu sem komi í þess stað. Hún bendir á að mikil þróun eigi sér stað á orkumörkuðum heimsins. Horft sé í síauknum mæli til grænnar orku, en í mörgum ríkjum standi hún ekki til boða. Hún nefnir að mörg Evrópulönd horfi til vetnis til húshitunar, sem noti sömu innviði og gas: framleiðsla vetnis, rafhlöður og útflutningur raforku um sæstreng séu valmöguleikar, sem þó geti tekið talsverðan tíma að þróa og koma á framleiðslustig hér á landi.

Nauðsynlegt að opna samninga

Þórdís segir það skýra afstöðu sína að opna verði raforkusamninga við RT: „Það verður að birta staðreyndir máls til að hægt sé að taka vitræna umræðu um stöðuna.“ Það sé nauðsynlegt, því raforkuverðið sé bara einn hluti af heildarsamhenginu. Hún bendir á að RT hafi farið í miklar fjárfestingar hér á landi fyrir um áratug og sú staðreynd að öllum álverum RT í Evrópu hafi verið lokað eða þau seld, fyrir utan Ísland, sé „varla vegna þess að við erum með lélegustu samkeppnishæfnina“. Þórdís segir að nú fari fram úttekt á samkeppnishæfni orkufreks iðnaðar, sem vonandi skili sér fljótlega og „ætti að leiða í ljós stöðuna“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka