Kafarar á vegum Landhelgisgæslu Íslands köfuðu 16. júlí sl. niður að flaki olíuskipsins El Grillo, sem liggur á botni Seyðisfjarðar, eftir að vart varð við olíumengun frá skipinu.
Í ljós kom að aðgerðir sem farið var í til að hefta olíuleka úr einum af tönkum skipsins í vor halda og er enginn leki sjáanlegur frá þeim tanki.
Hins vegar virðist sem farið sé að leka úr öðrum tanki sem staðsettur er undir brú skipsins, að því er fram kemur í frétt á heimasíðu Landhelgisgæslunnar. Lekinn kemur frá mannopi sem staðsett er framan við brún skipsins en drasl og set á dekki heftir aðgengi að þessum tanki. Sjávarhiti er hár á þessum árstíma sem getur orsakað aukinn leka núna en þó er ekki um mikinn leka að ræða sem stendur. sisi@mbl.is