Nýr útsýnisstaður í höfuðborginni

Hér má sjá útsýnið af nýju landfyllingunni yfir Sundin, Skarfasker …
Hér má sjá útsýnið af nýju landfyllingunni yfir Sundin, Skarfasker er til vinstri á myndinni. Faxaflóahafnir hafa komið fyrir bekkjum/borðum, svo almenningur geti tyllt sér niður. mbl.is/Árni Sæberg

Framkvæmdir við landfyllinguna miklu við Klettagarða í Sundahöfn eru langt komnar. Nú hefur almenningi verið heimiluð för um landfyllinguna og Faxaflóahafnir hafa komið fyrir bekkjum/borðum á völdum stöðum svo fólk getið tyllt sér niður. Hins vegar verður innkeyrslunni lokað svo landfyllingin fyllist ekki af bifreiðum.

Tota gengur út af fyllingunni og þegar þangað er komið blasir við fólki stórglæsilegt útsýni í allar áttir, útsýni sem ekki hefur verið í boði áður. Glæsilegt er að horfa yfir borgina, þar sem háhýsin við ströndina og Hallgrímskirkja gnæfa yfir byggðina. Ekki er síður tilkomumumikið að horfa yfir sundin til Viðeyjar og Viðeyjarstofu. Og fyrir framan totuna er Skarfasker, sem fólk hefur ekki áður getað skoðað í slíku návígi.

Til að auðvelda fólki að komast út á þennan stað hefur verið komið fyrir malaryfirlagi meðfram sjóvarnargörðunum, yst á landfyllingunni. Í framtíðinni verður göngustígur malbikaður meðfram sjóvörninni, en óvíst er að það náist að malbika stíginn á þessu ári, að því er Gísli Gíslason hafnarstjóri tjáir blaðinu.

i Þegar horft er í vesturátt blasir Laugarnesið við frá …
i Þegar horft er í vesturátt blasir Laugarnesið við frá nýju sjónarhorni. Einnig er frábært útsýni yfir borgina, þar sem háhýsin við ströndina, íbúðarhús og turnar, gnæfa yfir byggð. mbl.is/Árni Sæberg

Framkvæmdir við landfyllinguna hófust vorið 2019 og hafa gengið betur en áætlanir gerðu ráð fyrir. Reiknað var með að þeim myndi ekki ljúka fyrr en 2021. Einnig hefur kostnaðaráætlun staðist, en reiknað var með að framkvæmdirnar kostuðu 260 milljónir. Heildarflatarmál á fylltu landi innan sjóvarnargarða er um 2,3 hektarar. 

Til að útbúa slíka landfyllingu þarf mikið af grjóti. Svo heppilega vildi til að hægt var að flytja grjót úr grunni Nýja Landspítalans við Hringbraut í landfyllinguna, allt að 280 þúsund rúmmetra. Þetta reyndist mikið happ fyrir spítalann, því til stóð að flytja allt grjótið úr grunninum um 35 kílómetra leið upp í Bolöldur, sem er námasvæði fyrir ofan Sandskeið. Þess í stað þurfti aðeins að aka nokkra kílómetra niður í Sundahöfn með 25 þúsund vörubílshlöss. Sparnaðurinn var á annað hundrað milljónir auk miklu minni áhrifa á umhverfið.

Skarfasker sést vel frá landfyllingunni.
Skarfasker sést vel frá landfyllingunni. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka