Spurning starfsmanns „alls ekki illa meint“

Starfsmaður í fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra, sem spurði konu sem tilkynnti um …
Starfsmaður í fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra, sem spurði konu sem tilkynnti um meðvitundarlausan mann á götum úti hvort hún teldi viðkomandi vera „skattgreiðanda“, segir að um klaufalegt orðalag hafi verið að ræða, sem hafi alls ekki verið illa meint. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Johnsen hringdi á lögregluna á mánudaginn til þess að láta vita af meðvitundarlausum manni sem lá í götunni og var þá spurð að því hvort henni sýndist maðurinn vera skattgreiðandi. Hún sagði frá þessu í færslu á Facebook, sem olli undrun og hneyksli í athugasemdum, og rataði sömuleiðis í fjölmiðla.

Nú hefur embætti ríkislögreglustjóra sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem orðalag starfsmannsins í fjarskiptamiðstöðinni er sagt hvorki endurspegla viðhorf lögreglunnar né starfsmannsins til skjólstæðinga þeirra. 

„Eftir skoðun kom í ljós að samskipti hefðu mátt vera betri og á því hefur verið tekið,“ segir í tilkynningunni.

Starfsmaðurinn segir sjálfur að um klaufalegt orðaval hafi verið að ræða þegar hann hafi verið að reyna að átta sig á stöðunni sem hafi alls ekki verið illa meint. Hann áttaði sig á mistökum sínum og gekkst að fullu við þeim. Einnig skal tekið fram að ekki er um að ræða viðtekið orðfæri innan lögreglunnar,“ segir þar jafnframt.

„Sýnist þér hann vera skattgreiðandi?“

Í stöðuuppfærslu Sólveigar segir að orðrétt hafi starfsmaðurinn í fjarskiptamiðstöðinni spurt: „Sýnist þér hann vera skattgreiðandi?“ Sólveig kveðst ekki hafa vitað hvernig hún ætti að svara þessu en segir að eftir á að hyggja hefði hún átt að inna hann eftir nánari skýringu á því hvers vegna það skipti máli.

„Þetta gefur til kynna að lögreglumenn bregðist ólíkt við því hver þarf hjálp. Hefðu þeir ekki sent einhvern til að gá að manninum ef hann hefði verið heimilislaus eða íslenskur?“ skrifar hún.

Ríkislögreglustjóri áréttar í tilkynningunni að allir sem leiti til lögreglu njóti sama réttar. „Rætt hefur verið við tilkynnanda í málinu og hann upplýstur um málsmeðferðina og skýringar starfsmannsins. Embætti Ríkislögreglustjóra ítrekar að allir sem leiti til lögreglu eigi rétt á sömu þjónustu og virðingu.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert