Dregur verulega í efa hæfi Sigríðar til að taka ákvörðun í máli sínu

Óskar Bjartmarz yfirlögregluþjónn segir núverandi ríkislögreglustjóra ekki hafa heimild til …
Óskar Bjartmarz yfirlögregluþjónn segir núverandi ríkislögreglustjóra ekki hafa heimild til að rifta samkomulagi við hann og nokkra samstarfsmenn hans um launahækkun. Samkomulagið gerði Haraldur Johannessen í sinni embættistíð. Árni Sæberg

Í nýju lögfræðiáliti sem unnið hefur verið að ósk Óskars Bjartmarz, yfirlögregluþjóns hjá embætti ríkislögreglustjóra, er ákvörðun Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra um að afturkalla hækkun á grunnlaunum Óskars og nokkurra annarra yfirlögregluþjóna hjá embættinu harðlega mótmælt.

„Núverandi ríkislögreglustjóri hefur ekki heimild til að ógilda eða afturkalla samkomulagið einhliða, hvorki á grundvelli meginreglna stjórnsýsluréttar né nokkurra annarra réttarheimilda,“ segir í álitinu. Það hefur verið afhent dómsmálaráðherra.

Sigríður Björk tók við embættinu af Haraldi Johannessen eftir að hann lét af störfum um áramótin, en í lok ágúst 2019 hafði hann gert samning við viðkomandi starfsmenn um endurskoðun á launakjörum. Launahækkun tók gildi 1. september en eftir að Sigríður tók við boðaði hún að launahækkanirnar yrðu afturkallaðar. Þetta tilkynnti hún starfsmönnunum fyrr í júlí, samkvæmt Óskari.

Sigríður gerði þetta á grundvelli lögfræðiálits frá Forum sem var á þá leið að henni væri þetta heimilt. Í lögfræðiáliti Óskars, sem Kristján B. Thorlacius hjá Fortis skrifar undir, er hins vegar rökstutt að henni hafi ekki verið heimilt að rifta samningunum, enda stangist það á við samningarétt. Sigríður telur sig þess umkomna í ljósi stjórnsýsluréttar en það hrekur lögfræðiálit Fortis einnig.

Þá er það einnig hrakið að fyrrverandi ríkislögreglustjóri hafi verið óhæfur til þess að gera umrædda samninga, eins og sagt er að ýjað sé að í áliti Forum. Ennfremur er dregið „mjög verulega í efa“ að núverandi ríkislögreglustjóri sé hæfur til að taka hlutlæga og málefnalega ákvörðun í máli Óskars.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir var skipuð ríkislögreglustjóri í mars.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir var skipuð ríkislögreglustjóri í mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fullgilt skuldbindandi samkomulag“

„Lögð er áhersla á að fyrir hendi er fullgilt, skuldbindandi samkomulag um launagreiðslu og röðun [Óskars] í launaflokka frá ágúst 2019, sem embætti ríkislögreglustjóra ber að standa við samkvæmt meginreglum vinnu- og samningaréttar,“ segir í álitinu.

Þar segir einnig að það að ríkislögreglustjóri tjái sig í fjölmiðlum um ákvörðunina og hafi lýst því yfir að líklega verði málið að dómsmáli án þess að veita Óskari svigrúm til andmæla, stangist á við meginreglur stjórnsýsluréttar, t.d. rannsóknarreglu og „þau grundvallarsjónarmið sem liggja að baki reglunni um andmælarétt.“

Í niðurstöðum álitsins er loks sagt að sú staðreynd, að embættið virðist vera í villu með hvaða heimildir það hefur í málinu og virðist ætla að taka stjórnvaldsákvörðun um málefni sem samkvæmt „dómafordæmum og áliti fræðimanna“ ber að ráðstafa með samningi á grundvelli starfsmanna- og samningaréttar, megi ekki verða Óskari til tjóns. Ríkislögreglustjóri beri ábyrgð og Óskar áskilur sér allan rétt í því sambandi, ef ekki verður hætt við að afturkalla launahækkanirnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert