Nú á dögunum var íslenskur veitingastaður opnaður í Torrevieja skammt frá Alicante á Spáni. Staðurinn ber heitið Smiðjan – SkyBar og hefur verið í bígerð um nokkurt skeið.
Eigendur staðarins eru kærustuparið Bjarni Haukur Magnússon og Laufey Eva Stefánsdóttir. Þau hafa undanfarin ár verið búsett á Spáni þar sem Bjarni hefur m.a. starfað við sölu fasteigna.
Að sögn Bjarna hefur hann lengi dreymt um að opna veitingastað á svæðinu. Hins vegar hafi planið alltaf verið að opna minni stað, en Smiðjan – SkyBar tekur rétt um 180 manns í sæti og er á besta stað í Torrevieja.
„Ég hef verið hér með hléum í átta ár og unnið við fasteignasölu og í ferðaþjónustu. Ég fann að sama skapi að það var kominn tími til að breyta um vettvang og gera eitthvað nýtt. Laufey var til í að koma með mér í þetta og planið var að opna talsvert minni stað. Eftir að við fundum svo þessa staðsetningu breyttust plönin og þetta gerðist allt mjög hratt,“ segir Bjarni í samtali í Morgunblaðinu í dag.