„Ég sá alltaf fyrir mér svæði sem var eingöngu stórborg, en hér er gríðarlega mikið og fallegt náttúrusvæði,“ segir Egill Þór Ívarsson flugmaður, sem búsettur hefur verið á í sjálfstjórnarhéraðinu Hong Kong undanfarið ár.
Þar hefur hann starfað hjá Cathay Dragon, sem er stórt flugfélag í Asíu. Þangað hélt hann eftir að WOW air varð gjaldþrota, en Egill hafði starfað hjá síðarnefnda félaginu um skamma hríð. Aðspurður í Morgunblaðinu í dag segir Egill að hann hafi tekið ákvörðun um að flytjast til Hong Kong þegar langtímavinna bauðst hjá Cathay Dragon.
„Ég hafði verið að leita mér að starfi, en það var ekkert í boði nema til skamms tíma í Evrópu. Mig langaði hins vegar í starfsöryggi og ákvað að slá til,“ segir Egill, sem kveðst kunna vel við sig í Hong Kong. Þá komi staðurinn mjög á óvart, en Hong Kong er einn af þéttbýlustu stöðum heims. Þannig búa rétt um 7,4 milljónir íbúa af margvíslegum uppruna á 1.104 ferkílómetra svæði.