Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó veðurguð, verður með brekkusöng um verslunarmannahelgina. Verður viðburðurinn sýndur í Sjónvarpi Símans og á mbl.is auk þess sem K100 verður með útsendingu frá fjörinu.
Að sögn Pálma Guðmundssonar, dagskrárstjóra Símans, hefur lengi staðið til að vera með beina útsendingu frá tónleikahaldi Ingós.
„Við höfðum upphaflega samband við hann í byrjun faraldursins, en síðan tók Helgi Björnsson flugið. Í kjölfarið ákváðum við að finna þessu betri tíma. Þegar Þjóðhátíð var síðan slegin af var þetta borðleggjandi,“ segir Pálmi í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.