Bruninn við Bræðraborgarstíg þann 25. júní er rannsakaður sem manndráp af ásetningi, að því er fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manninum sem handtekinn var vegna brunans. Fréttablaðið greinir frá.
Maðurinn var fyrst settur í gæsluvarðhald þann 3. júlí en það var síðar framlengt. „Ekki hafi verið rætt við kærða sjálfan vegna andlegra veikinda hans að undanförnu,“ segir í úrskurðinum sem er dagsettur 15. júlí.
Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum kemur fram að sakborningurinn sé sterklega grunaður um að hafa brotið gegn 211. grein almennra hegningarlaga. Hún snýr að manndrápi af ásetningi. Þá er maðurinn sömuleiðis grunaður um brot gegn valdstjórninni, að hafa valdið eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu og hafa stofnað lífi annarra í hættu.
Brotin sem um ræðir geta varðað allt að ævilöngu fangelsi, að því er fram kemur í úrskurðinum. „Óforsvaranlegt þyki að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarleg brot,“ segir í úrskurðinum.
Þrír létust í brunanum við Bræðraborgarstíg og misstu margir heimili sitt og eigur.