„Þetta er svakalegt; álíka og að fresta jólunum. Þið verðið bara að sætta ykkur við þetta; það verða engar gjafir í ár og engin messa,“ segir Dóra Guðrún Þórarinsdóttir, grunnskólakennari í Vestmannaeyjum, um þá ákvörðun að aflýsa Þjóðhátíð í bænum vegna kórónuveirufaraldursins.
Enda þótt Þjóðhátið verði ekki með hefðbundnu sniði í ár er Dóra Guðrún ekki í nokkrum vafa um að þjóðhátíðarstemning verði í Eyjum um verslunarmannahelgina. „Við fjölskyldan ætlum alla vega að halda okkar striki og í stað þess að tjalda í Dalnum tjöldum við bara heima í garði. Í stað þess að fara á tónleika horfum við bara á Tónaflóð á RÚV og Heima með Helga Björns í Sjónvarpi Símans. Það verður brenna á miðnætti á föstudagskvöldinu og þá gerum við okkur ferð í Dalinn og svo verður brennukaffi heima á eftir. Það er mjög mikilvægt að halda sömu venjunum, klæða sig upp, baka og smyrja fyrir krakkana og okkur öll; það verða fastir liðir eins og venjulega – bara heima í garði.“
Dóra Guðrún hefur verið að taka púlsinn á fólkinu í kringum sig og segir marga hafa sömu áform. „Það verður tjaldarölt milli vina og kunningja alla helgina; annað gengi ekki upp enda er Þjóðhátíð fyrst og fremst við fólkið. Hún er hluti af sálinni okkar og engin leið að leggja hana niður, þótt hún verði í þetta eina skipti með óhefðbundnu sniði.“
Hún á von á fjölmörgum gestum til Eyja um verslunarmannahelgina. „Það koma alla vega fimm manns til mín og mér skilst að lítið sé um afpantanir hjá Herjólfi. Fólkið sem kemur alltaf, brottfluttir Eyjamenn, aðrir velunnarar og tengt fólk, heldur bara sínu striki og kemur. Margt af þessu fólki er löngu búið að leigja sér hús og gistingu.“
ÍBV hefur veg og vanda af Þjóðhátíð og Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri félagsins, segir það vissulega mikil vonbrigði að ekki verði hægt að halda hátíðina í ár. Það hafi auðvitað mikið fjárhagslegt tjón í för með sér enda þótt hann vilji ekki nefna neinar upphæðir í því sambandi. „Það er alveg ljóst að ÍBV mun ekki koma að neinni dagskrá hér í Eyjum um verslunarmannahelgina.“
Spurður hvað þetta þýði fyrir rekstur félagsins á komandi mánuðum svarar Hörður Orri: „Þegar tekjur sem gert hafði verið ráð fyrir skila sér ekki þarf að leita annarra leiða. Um tvennt er að ræða í því sambandi, annars vegar að afla tekna með öðrum leiðum eða draga úr kostnaði. Við erum að fara yfir þessi mál núna og vonumst meðal annars til að eiga viðræður við bæjaryfirvöld um það hvort þau komi til með að bæta okur tjónið með einhverjum hætti.“
Eins og áður var Vestmannaeyjaferjan Herjólfur búin að stilla upp siglingaáætlun í samstarfi við ÍBV fyrir verslunarmannahelgina. Sú áætlun fór að vonum fyrir lítið þegar Þjóðhátíð var aflýst. „Eins og planið lítur út núna verður þetta bara hefðbundin helgaráætlun hjá okkur miðað við árstíma; við reiknum með að sigla sjö sinnum á dag frá fimmtudegi og fram á þriðjudag,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs. „Þegar þar að kemur þurfum við svo bara að meta hvort bæta þurfi við ferðum að höfðu samráði við þar til bæra aðila. Við fylgjum að sjálfsögðu fyrirmælum og gætum þess að virða fjöldatakmarkanir.“
Hafdís Kristjánsdóttir, sem rekur tjaldsvæðin í Vestmannaeyjum, segir mikla óvissu ríkja með fjölda gesta um verslunarmannahelgina. „Maður heyrir orðróm um að straumurinn liggi hingað en ekkert er fast í hendi. Þetta verður allt öðruvísi en við eigum að venjast, ekki hægt að miða við neitt, og ég hef enga hugmynd um hvað við eigum von á mörgum. Eitt er þó víst; við verðum tilbúin að taka á móti öllum, hvort sem það koma margir eða örfáir,“ segir hún.
Hægt er að skipta Herjólfsdal í tvö svæði þannig að þar geta 1.000 manns verið í tjöldum og reiknar Hafdís með að stefna yngra fólkinu þangað. Á Þórsvellinum eru þrjú svæði þannig að þar geta 1.500 manns verið og þá aðallega fjölskyldufólk, að sögn Hafdísar. „Allir eru velkomnir, svo lengi sem pláss leyfir. Og ef tjaldsvæðin fyllast höldum við bara neyðarfund með bæjaryfirvöldum. Við erum vön að hugsa og vinna í lausnum hér í Eyjum.“
Hún segir veðrið alltaf mikinn áhrifavald og því ábyggilegri sem langtímaspáin verði þeim mun betra verði að undirbúa sig.
Spurð hvernig hún haldi að Þjóðhátíð verði að ári þarf Hafdís ekki nema eitt orð: „Sprengja.“
Nánar er fjallað um frestun Þjóðhátíðar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.