Eitt virkt kórónuveirusmit greindist við skimun á landamærum Íslands í gær. Eru nú 11 virk smit á landinu, þar af tvö innanlandssmit.
Þetta segir Jóhann K. Jóhannson, upplýsingafulltrúi almannavarna, í samtali við mbl.is, en tölur á covid.is hafa ekki verið uppfærðar í dag. Ekkert smit greindist innanlands.
Tekin voru 1.694 sýni á landamærum í gær. Alls hafa nú 51.868 sýni verið tekin á landamærum og 21 þeirra greinst virkt. Þá hafa 68.866 sýni verið tekin innanlands.
Nýgengi sjúkdómsins, ný virk smit á hverja 100.000 íbúa síðustu 14 daga, er nú um 3,1.