Ef þú ert snjallsímanotandi kannastu líklega við að fara inn á instagram, eða annan samfélagsmiðil, og ætla rétt að kíkja og sjá hvað sé að gerast. Tuttugu mínútum seinna ertu ennþá á instagram og skilur ekkert hvert tíminn fór. Þú sverð að þú ætlir að hætta að eyða tímanum í símanum og verja honum í eitthvað uppbyggilegra. En kannski erum við að valda meiri skaða en að eyða tíma í ekki neitt þegar við skrollum niður samfélagsmiðlana.
Niðurstöður rannsóknar frá árinu 2017 benda til þess að 73% fólks upplifi kvíða þegar það finnur ekki símann sinn. Við snertum símann okkar um 2.600 sinnum á dag og eyðum um tveimur til fjórum tímum í honum á dag. Margir kannast eflaust við að finna símann sinn titra í buxnavasanum þegar hann er ekki einu sinni á staðnum!
Á samfélagsmiðlum getum við nálgast eitt risastórt tengslanet. Þú getur haft samband við nánast hvern sem er og fylgst með svotil hverjum sem er. Mannskepnan er háð félagslegum tengslum og á því erfitt með að halda sig fjarri samfélagsmiðlum og öllu því sem þeir bjóða upp á.
Ein ástæða þess að við eyðum mun meiri tíma en við myndum vilja á samfélagsmiðlum er eitt frægasta taugaboðefni heilans, dópamín. Dópamín á stóran þátt í því hvernig við hegðum okkur. Það losnar þegar við borðum góðan mat, stundum kynlíf og þegar vel gengur í samskiptum við aðra.
Dópamín fær þig til að vilja gera hluti. Það lætur þig í raun elta uppi ánægjutilfinningu sem myndast við alls kyns athafnir. Dópamín gegnir því mikilvægu hlutverki við að festa í sessi venjur eins og að bursta tennur eða stunda líkamsrækt. En losun dópamíns getur einnig leitt til fíknar í eiturlyf eða ávanabindandi hegðunar á borð við fjárhættuspil. Nú, eða snjallsímanotkunar.
Í hvert skipti sem við eigum í samskiptum á samfélagsmiðlum, fáum læk, athugasemd, skilaboð eða skoðum færslur annarra, fáum við lítinn skammt af dópamíni. Það eina sem þú þarft að gera til að fá þennan skammt er að taka upp símann, athöfn sem tekur stuttan tíma og kostar nánast enga orku. Þess vegna eigum við auðvelt með að verða háð samfélagsmiðlum. Við tökum upp símann í leit að smá dópamíni og tökum hann svo upp aftur stuttu seinna. Nú, eða leggjum hann ekki frá okkur og skrollum og skrollum.
Þarna lendir fólk í eins konar dópamín-vítahring sem erfitt er að komast úr. Vandamálið virðist vera að við fáum aldrei nóg því í raun eru það ekki samskiptin sjálf sem drífa okkur áfram og gefa okkur dópamínskammtinn heldur væntingin.
Þetta vita hönnuðir samfélagsmiðlanna. Þeir eru bókstaflega hannaðir til að halda okkur á þeim því það er jú það sem færir fyrirtækjunum á bak við þá auglýsingatekjur. Facebook hefur víkkað út viðmið fyrir tilkynningar sem fólk fær og því fjölgar dópamínskömmtunum sífellt. Instagram „geymir“ meira að segja læk á myndir fólks og hendir þeim svo inn nokkrum í einu. Það gerir fólk óánægt í fyrstu en svo mjög ánægt þegar lækin loks hrannast inn og ýtir undir símafíkn okkar.