Hvað þýðir að lifa með veirunni?

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir: „Hvað tekur langan tíma fyrir veiruna að …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir: „Hvað tekur langan tíma fyrir veiruna að brenna út?“ Árni Sæberg

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur langt í frá sagt sitt síðasta, þó að upplýsingafundur almannavarna á fimmtudaginn hafi verið sagður sá síðasti í bili. Upplýsingarnar skulu áfram komast til fólksins, þó að tímabært sé orðið að boðleiðirnar taki á sig nýja mynd. Fram undan eru „eitt eða tvö ár, ég veit það ekki“ af veirunni, þannig að þetta er ekki yfirstaðið þó að við séum komin fyrir horn. Og það þarf heppni til að vinna leikinn.

„Þar kemur náttúrulega að þetta verður svolítið þreytandi og leiðigjarnt og menn nenna ekki að hlusta á þetta,“ sagði Þórólfur í spjalli við mbl.is eftir fundinn á fimmtudag. „Ég held að það sé komin þreyta í þetta form að mörgu leyti og ágætt að hvíla það. Það er ekki þar með sagt að það sé kominn endapunktur á að miðla upplýsingum, við munum gera það áfram, bara í öðru formi.“

Það er engin höfnunartilfinning í ykkur eftir áhorfshrunið?

„Nei, ég held ekki. Ég skil vel að fólk sé farið að taka íslenska sumarið fram yfir okkur. Annað væri bara mjög óeðlilegt. Síðan hafa fjölmiðlar líka gert þessum fundum mjög góð skil, þó að það séu ekki endilega margir að horfa á beinu útsendinguna. Upplýsingarnar hafa því skilað sér.“

Erlendir fjölmiðlar spyrja 

Í viðtali við DV nýverið talaði Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, á þá leið að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefði vart undan að ræða við erlenda fjölmiðla um Ísland. Álagið hefur síst minnkað í tengslum við kórónuveirufaraldurinn og manni leikur forvitni á að vita hvort Þórólfur sé í sömu stöðu, hvort athygli erlendra fjölmiðla sé mikil, jafnvel sem uppbót fyrir ofangreint áhorfshrun.

„Ég fæ töluvert mikið af símtölum og beiðnum um viðtöl frá erlendum fjölmiðlum og reyni að sinna þeim eins og hægt er. Auðvitað hafa þeir áhuga á því sem er að gerast hér og við höfum að mörgu leyti tekist á við faraldurinn á annan máta en annars staðar. Engar tvær þjóðir gera þetta eins en við höfum gert þetta svolítið öðruvísi. Og við eigum kannski hægara um vik, í fámenni og einangrun, að bregðast við svona faraldri. Það er klárt mál að það er erfiðara í flóknari og stærri samfélögum. Það er örugglega það líka sem vekur áhuga hjá erlendum fjölmiðlum, spurningar eins og hvað gerðuð þið? Hvernig gerðuð þið þetta? Af hverju hefur ykkur tekist vel til?“

Örlagastund 13. mars, þegar Þórólfur kynnti ásamt ráðherrum í Ráðherrabústaðnum …
Örlagastund 13. mars, þegar Þórólfur kynnti ásamt ráðherrum í Ráðherrabústaðnum að 16. mars tæki gildi samkomubann á Íslandi. Það var róttækt en nauðsynlegt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur svarar (í stuttu máli)

Það stendur ekki á svörum og Þórólfur óttast ekki einfaldanir erlendra fjölmiðla, enda málið raunar einfalt. „Í stuttu máli“, segir Þórólfur: 

„Þegar menn spyrja mig hvað er mikilvægast í svona faraldri, þá segi ég undirbúningurinn. Þú verður að skipuleggja þig og vera tilbúinn að grípa til aðgerða strax. Það var einn af okkar styrkleikum. Við erum búin að vera í mörg ár að búa okkur undir þetta og þegar kallið kom var tiltölulega klárt hverjir ættu að taka þátt og hverjir ættu að gera hvað. Ég segi ekki um skipulag annarra þjóða en mér sýnist að margar hafi þær ekki gripið til harðra aðgerða strax í upphafi, sem ég held að sé alger forsenda fyrir því að ná að stoppa svona faraldur. Ef þú ert ekki tilbúinn að fást við hann strax í byrjun, þá ræðurðu ekki við það þegar hann er kominn í veldisvöxt. Þá er hann kominn út um allt, fullt af einstaklingum með vægar sýkingar, einkennalausir, og þú ert bara að klóra í bakkann,“ segir Þórólfur og fer þar að auki með rununa góðu um ástæður íslenska undursins; mikið af sýnum, skimanir, sóttkví, einangrun, smitrakning og einstaklega öflugt smitrakningarteymi.

Fundur í lok febrúar, þegar fyrstu smitin voru farin að …
Fundur í lok febrúar, þegar fyrstu smitin voru farin að gera vart við sig á landinu. Kristinn Magnússon

„Þetta sem við áttum við með að lifa með þessari veiru“

Þetta allt hefur skilað því fyrirmyndarástandi sem ríkir hér á landi í málefnum veirunnar, ef skilvíslega er litið fram hjá fáeinum hnökrum á sigurgöngunni, þ.e. þeim innanlandssmitum sem þó hafa orðið á síðustu mánuðum. Þau hafa ekki sprungið út í stór hópsmit en enn er ekki útséð með smit frá fimmtudeginum á frjálsíþróttamóti og annað á öðrum vettvangi.

Ljóst er að hjarðónæmi með náttúrulegri framgöngu veirunnar fæst ekki nema með miklum sársauka. Eins og Þórólfur bendir á, hefur ekki einu sinni Svíum tekist að nálgast þau 60% sem talað er um að þurfi þar til, en um 10% Svía eru taldir vera með mótefni, samanborið við um 1% Íslendinga. Þórólfur vill heldur bíða bóluefnis við óbreytt ástand en að eltast við hjarðónæmið.

„Við myndum fá miklar alvarlegar afleiðingar ef við gerðum það og það myndi taka mjög langan tíma. Kannski breytist veiran eitthvað á þeim tíma, en ég held að það sé ekki alveg praktískt. Það var þetta sem við áttum við með að lifa með þessari veiru og ég hef talað um alla vega mánuði ef ekki ár. Í eitt eða tvö ár, ég veit það ekki, þurfum við að venja okkur á að þessi veira verði hangandi yfir okkur og með okkur. Hún er í hámarki núna í heiminum öllum og hefur verið hérna síðan síðustu áramót. Hvað tekur langan tíma fyrir veiruna að brenna út? Ég held að hún hafi enn nægilegt fóður víða, jafnvel í löndum þar sem hún hefur valdið miklum usla.“

Lengi var á reiki hve lengi þyrfti að bíða bóluefnisins en af nýjustu upplýsingum að dæma, frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og Þórólfi, munu fyrstu bólusetningar geta hafist í lok ársins 2021. 

„Virkt smit við landamærin“

Samhliða sjaldgæfari fréttum eins og frá því í gær af tveimur innanlandssmitum berast tíðar stakar fréttir af einum og einum ferðamanni, sem greinist með virkt smit við landamærin og er settur í einangrun. Sumir vita ekki hvernig þeim á að líða þegar þeir heyra slíkt, vissulega er þetta smit, en gott að það er búið að loka það af.

Hvernig líður þér þegar þú heyrir af þessum smitum? Ert þú feginn eða svekktur þegar þú heyrir af virkum smitum við landamærin?

„Feginn og ekki feginn. Þetta eru fá smit sem eru að greinast. 20 smit af einhverjum 50.000 sem hafa verið prófaðir. Það eru ekki mjög margir en það getur verið nóg til að hugsanlega koma einhverju af stað. Smitaður þarf ekki að smita nema einn eða tvo Íslendinga sem svo smita tvo eða þrjá og áður en við vitum af erum við komin með stóran hóp. Væri ég ánægður ef enginn fyndist? Já, ég væri sennilega ánægðari með það ef enginn myndi greinast. En myndi ég spyrja mig: Er eitthvað að testinu hjá okkur? Er prófið ekki í lagi? Er einhver að sigla í gegn? Ég er alla vega þess fullviss núna að það sem við erum að gera núna, það er að virka.“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Rögnvaldur Ólafsson yfirlögregluþjónn í febrúar. Margt …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Rögnvaldur Ólafsson yfirlögregluþjónn í febrúar. Margt vatn hefur runnið til sjávar og á sama hátt er nokkur spölur fram undan. Aðgerðirnar virkuðu, að sögn Þórólfs. Kristinn Magnússon

Það þarf heppni til að vinna leikinn

Heimkomusmitgátin umrædda er farin að ná utan um Íslendinga sem koma frá útlöndum og vísi að hópsmiti í júlí mátti afstýra, þökk sé því að símtal barst frá Bandaríkjunum sem gaf knattspyrnukonu í Breiðabliki upplýsingar um að smit væri komið upp.

„Það var mjög góð tilviljun að það gerðist. Ella hefði smitið örugglega orðið útbreiddara. En það er þannig að ef við ætlum að vinna leikinn þurfum við gott leikskipulag og góða leikmenn inni á vellinum en við þurfum líka dálitla heppni til að fá hagstæð úrslit í leiknum,“ segir Þórólfur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert