„Hvar er álfabærinn?“

Örlygur við álfabæinn.
Örlygur við álfabæinn. Ljósmynd/Aðsend

Á Húsavík er risinn álfabær. Bærinn er eftirmynd álfabæjarins úr Eurovision-mynd Will Ferrell sem óhætt er að segja að hafi komið Húsavík rækilega á kortið erlendis.

Bæinn smíðuðu Örlygur Hnefill Örlygsson, sem rekur hótelið Cape Hotel í bænum, og Stefán Jónasson starfsmaður hótelsins. Stutt er síðan útibarinn Jaja Ding Dong var opnaður við hótelið sem sækir nafn sitt í eftirminnilegt lag myndarinnar, sem á að vera uppáhaldslag Húsvíkinga.

Í samtali við mbl.is segir Örlygur að tvær spurningar standi upp úr hjá gestum barsins. „Fólk vill fá að heyra Jaja Ding Dong og það spyr „Hvar er álfabærinn?““ segir Örlygur, en í kvikmyndinni er mikið gert úr álfatrú Íslendinga og önnur söguhetjanna, Sigrit Ericksdóttir, venur komur sínar á álfabæ í nágrenni Húsavíkur til að færa álfunum gjafir. 

Álfabærinn var kynntur til leiks í dag. Þó vonandi ekki …
Álfabærinn var kynntur til leiks í dag. Þó vonandi ekki vígður, enda geta álfar ekki búið við slíkar aðstæður. Ljósmynd/Aðsend

Ferðamenn báðu um að fá að sjá álfabæinn

Senurnar með álfabænum voru hins vegar teknar í Skotlandi og þegar ferðamenn báðu um að fá að sjá álfabæinn komu þeir því að tómum kofanum, þar til nú. „Við sáum það strax á degi tvö [eftir að barinn opnaði] að við urðum að smíða þennan bæ,“ segir Örlygur, sem naut sem fyrr segir liðsinnis Stefáns Jónassonar smiðs á Héðinshöfða. 

„Ég skoðaði hvernig þetta er í myndinni og teiknaði upp bæinn. Svo erum við búin að smíða þetta síðustu daga,“ segir hann en bærinn var kynntur í dag. Örlygur segir að viðtökurnar hafi verið góðar. Þegar í gær hafi stór hópur komið að skoða bæinn, sem stendur skammt frá hótelinu, og fjöldi krakka farinn að sniglast á svæðinu.

Fjórtán ár eru frá því Örlygur hóf rekstur hótelsins á Húsavík, en hann segir sumarið í ár það skemmtilegasta af þeim öllum. Aðsókn hefur verið góð og hótelið verið fullt nær öll kvöld í júlí. „Við áttum ekki von á að það yrði mikið að gera, en Íslendingar hafa heldur betur tekið við sér,“ segir hann. „Íslendingar hafa gaman af því að ferðast, þeim finnst gaman að skoða sig um erlendis en margir eru núna að upplifa eigin land í fyrsta sinn.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert