Fullorðinn einstaklingur sem hefur verið viðstaddur knattspyrnumótið Rey Cup hefur greinst með kórónuveiruna. „Sá hafði verið á íþróttamótinu Rey Cup í Reykjavík þegar smitið uppgötvaðist,“ segir í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Í tilkynningunni segir að smitrakning hafi hafist um leið og málið kom upp og stendur enn. Einn er kominn í einangrun og á þriðja tug hefur verið beðinn um að fara í sóttkví í tvær vikur. Ekki er útilokað að þeim sem þurfa að fara í sóttkví fjölgi eftir því sem smitrakning fer fram.
Mótið hófst á miðvikudaginn og því á að ljúka á morgun, sunnudaginn 27. júlí.
Ráðstafanir hafa verið gerðar á Rey Cup og mótshaldarar hafa unnið með smitrakningarteymi almannavarna og sóttvarnayfirvöldum. Einstaklingurinn sem um ræðir og hópurinn sem hann var í samneyti við mun ekki taka frekari þátt í mótinu.
Samkvæmt Jóhanni K. Jóhannssyni, upplýsingafulltrúa almannavarna, var einstaklingurinn á Rey Cup í tengslum við íþróttafélag í Reykjavík.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis biðja fólk sem hefur sótt umrætt íþróttamót að gæta varúðar og huga að einstaklingsbundnum smitvörnum. Leiki minnsti vafi á hvort einkenni Covid-19 veirunnar séu til staðar er sá hinn sami beðinn um að fara í sýnatöku á næstu heilsugæslustöð.