Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður Sjöstjörnunnar, félags athafnarmannsins Skúla Gunnars Sigfússonar, hefur sent forseta Hæstaréttar bréf þar sem hann krefst þess að hæfi hæstaréttardómarans Benedikts Bogasonar verði skoðað í máli þrotabús EK1923 gegn Sjöstjörnunni sem flutt verður fyrir réttinum í október. Vísar hann til þess að Benedikt hafi nýlega verið í útskriftarveislu hjá tveimur dætrum skiptastjóra EK1923, Sveini Andra Sveinssyni.
Fjöldi mála komu upp í tengslum við skipti EK1923, sem áður var í eigu Skúla, en það mál sem nú verður tekið fyrir í Hæstarétti er það lang stærsta. Er þar tekist á um riftun á 223 milljónum annars vegar og 21 milljón hins vegar sem Sveinn Andri vildi fá frá félaginu Sjöstjörnunni.
Í héraði hafði Sjöstjarnan verið dæmt til að greiða þrotabúinu báðar upphæðirnar auk vaxta, samtals yfir 400 milljónir, en Landsréttur taldi aðeins að greiða ætti lægri upphæðina. Var sömuleiðis felld út kyrrsetning á eignum sem höfðu tengst greiðslu hærri upphæðarinnar. Sveinn Andri áfrýjaði til Hæstaréttar og samþykkti Hæstiréttur málskotsbeiðnina.
Heiðar segir í samtali við mbl.is að krafa hans snúist um hæfi hans til að dæma í máli vegna vinskapar við Svein Andra. „Þú býður ekki kunningjum í útskriftarveislu, þú býður vinum þínum,“ segir hann, en í júní útskrifuðust tvær dætur Sveins úr lögfræði og við það tilefni birti Sveinn Andri á Facebook mynd af þeim ásamt Benedikt þar sem tekið var fram að Benedikt væri lærimeistari þeirra „sem sá til þess að kröfurétturinn síaðist inn.”
Ásamt störfum sínum í Hæstarétti er Benedikt prófessor við lagadeild Háskóla Íslands þar sem hann kenndi meðal annars kröfurétt I og kröfurétt II á síðasta námsári.
Dómarar eiga sjálfir að gæta að eigin hæfi í málum sem þeir dæma og segist Heiðar því hafa sent bréfið á forseta réttarins í vikunni þar sem hann gerði kröfu um að skoðað yrði með hæfi Benedikts og að því yrði beint til hans að íhuga eigið hæfi í málinu.