Talningar í Stóra-Bretlandi benda til þess að grágæsum sé nú að fækka. Þetta kom fram á facebooksíðu Skotveiðifélags Íslands.
Dr. Arnór Þórir Sigfússon dýravistfræðingur sagði að talningar 2017 og 2018 hefðu bent til fækkunar grágæsa. Árið 2018 voru ekki taldar nema 56.000 grágæsir, sem er það minnsta sem hefur sést síðan 1976. Mögulega getur verið um talningarskekkju að ræða. Tölur fyrir 2019 eru ekki komnar en eru væntanlegar í ágúst eða september.
„Nú vantar okkur ungahlutfall grágæsa hér á landi undanfarin þrjú ár til að túlka þetta. Það segir svolítið til um afkomu gæsastofnanna á hverju ári og þar með hvort þeir eru að stækka eða minnka,“ sagði Arnór. Hann naut stuðnings úr veiðikortasjóði til að lesa aldur veiddra gæsa af vængjum þeirra. Arnór hefur ekki fengið styrk til þess í þrjú ár. Ungahlutfallið gaf vísbendingar um afkomu gæsastofnanna sem hér eru veiddir.
gudni@mbl.is