Nýtt afbrigði frekar en ný tegund veiru

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans.
Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans. Ljósmynd/Skjáskot

„Ný veira þýðir bara að þetta hefur verið einstaklingur sem kom að utan. Þetta er ekki eitthvað sem hefur verið að malla hér innanlands,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, um þær fregnir að „ný tegund veiru“ hefði greinst hér á landi.

Þrjú innanlandssmit greindust í gær og tvö við landamærin. Einn sem greindist hafði tekið þátt í félagsstarfi íþróttafélags á knattspyrnumótinu Rey Cup en uppruni smitsins ófundinn og smitrakning stendur yfir. Einnig greindist smit hjá einstaklingi sem kom til landsins 15. júlí og eru tveir sem voru í samneyti við hann byrjaðir að sýna einkenni COVID-19.

Þá greindist smit í gær sem tengist smiti sem greint var frá í fyrradag og eftir raðgreiningu hjá Íslenskri erfðagreiningu kom í ljós „ný tegund veiru sem ekki hefur greinst hér áður“. Smitrakningu er lokið í tengslum við það smit.

Nýtt afbrigði frekar en ný tegund veiru

Már tekur fram að ekki sé að ræða nýja veiru heldur sé þetta sama veira og hefur breitt úr sér um heim allan, þ.e. nýja kórónuveiran SARS-CoV-2. Það sé réttara að tala um nýtt afbrigði af þeirri veiru en um nýja tegund veiru.

Spurður hvað það þýði og hvort það gæti sagt eitthvað til um að önnur bylgja faraldurs sé byrjuð segir Már að eins og er sé um stakt tilvik að ræða og það gæti farið svo að ekkert meira yrði úr því.

„Hins vegar ef það fara koma upp tilfelli innanlands sem ekki eru með tengsl að utan og eru með sömu arfgerð og þetta tiltekna afbrigði þá væri hægt að draga þá ályktun [um seinni bylgju] en það er ótímabært að svo stöddu,“ útskýrir Már.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert