Þrjú ný innanlandssmit kórónuveirunnar greindust í gær og tvö smit greindust í landamæraskimun.
Í tengslum við smit sem uppgötvaðist á knattspyrnumótinu Rey Cup í gær hefur einn verið sendur í einangrun og sextán aðrir, sem voru í nánu samneyti við hann, í 14 daga sóttkví. Einstaklingurinn sem reyndist smitaður tók þátt í félagsstarfi íþróttafélags í Reykjavík og er einungis hluti íþróttaliðsins sem tók þátt í mótinu í sóttkví.
Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá almannavörnum er uppruni smitsins enn ófundinn og smitrakning enn í gangi.
Annað smit greindist í gær sem tengist smiti sem greint var frá í fyrradag. Íslensk erfðagreining hefur raðgreint smitið og kom í ljós ný tegund veiru sem ekki hefur greinst hér áður. Smitrakningu í tengslum við umrætt smit er lokið. Einn er í einangrun og 12 í sóttkví.
Þriðja smitið sem greindist í gær er hjá einstaklingi sem kom til landsins 15. júlí. Smitið greindist á suðvesturhorni landsins. Einstaklingurinn er kominn í einangrun og sex sem voru í samneyti við hann í sóttkví. Þeir fara jafnframt í sýnatöku en tveir eru farnir að sýna einkenni veirunnar.
Beðið er eftir niðurstöðu úr mótefnamælingu hjá tveimur sem greindust með veiruna við landamærin í gær.