Tvö ný afbrigði sem ekki hafa sést áður

Raðgreining Íslenskrar erfðagreiningar leiddi í ljós tvö afbrigði sem ekki …
Raðgreining Íslenskrar erfðagreiningar leiddi í ljós tvö afbrigði sem ekki hafa sést hér á landi áður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Af þeim þremur jákvæðu sýnum sem raðgreind voru hjá Íslenskri erfðagreiningu í gær sýndu tvö þeirra samskonar afbrigði veiru sem ekki hefur sést hér á landi áður. Þá var einstaklingur sem greindist með veiruna á fimmtudaginn sl. einnig með afbrigði af veirunni sem ekki hefur sést áður.

Þetta staðfestir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, sérfræðingur í sóttvörnum hjá embætti landlæknis, í samtali við mbl.is.

Sennilega komin frá Evrópu og Ísrael

„Það voru raðgreind í gær þrjú sýni og af þeim eru tvö með samskonar veiru, sem hefur ekki sést hér áður. Annars vegar hjá einstaklingi sem er nýlega kominn til landsins og hafði verið neikvæður í landamæraskimun en veikist svo nokkrum dögum eftir komuna til landsins og er nú jákvæður fyrir kórónuveirunni. Hann hefur smitað einn einstakling og sá einstaklingur hefur sennilega smitað einn annan en ekki er búið að raðgreina hans sýni,“ útskýrir Kamilla og bætir við:

„Svo er þessi einstaklingur sem greindist og hafði verið a frjálsíþróttamóti. Hann er með veiru sem við höfum ekki séð hér áður og er sennilega komin frá Evrópu en við vitum ekki um tengsl þess einstaklings við neinn sem hafði nýlega ferðast þar og hann hafði ekki nýlega ferðast þangað sjálfur.“

Ekki óhugsandi að hann hafi smitast á ferðalaginu

Hún segir að bæði smitin og afbrigðin séu örugglega nýlega innflutt til landsins. Annað afbrigðið er komið frá einstaklingi sem er búsettur í Ísrael en kom til Íslands í gegnum Evrópulönd þannig að ekki er hægt að staðfesta að smitið eigi uppruna sinn í Ísrael.

„Ef hann hefði komið jákvæður til landsins þá hefði það nú verið langlíklegast en af því að hann veiktist ekki fyrr en hann var búinn að vera hér í nokkra daga þá er ekki óhugsandi að hann hafi smitast á ferðalaginu,“ segir Kamilla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka