Áhyggjuefni ef ekki tekst að rekja uppruna smita

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir. mbl.is/​Hari

Staðgengill sóttvarnalæknis vonast til þess að smitrakning leiði í ljós sameiginlegan snertiflöt þriggja ótengdra smitaðra einstaklinga, sem raðgreining hefur leitt í ljós að eiga líklega smit sín að rekja til sama uppruna, sem ekki hefur fundist.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, verkefnisstjóri á sóttvarnasviði landlæknis og staðgengill sóttvarnalæknis, segir í samtali við mbl.is að ákveðin huggun felist í því að tekist hafi að tengja hópsýkinguna, sem einstaklingur með tvöfalt ríkisfang sem fór á mis við heimkomusmitgát virðist hafa valdið, smitum þeirra tveggja Íslendinga sem ekki höfðu verið erlendis, þ.e. frjálsíþróttamanni og foreldri á knattspyrnumótinu Rey Cup sem reyndist smitað.

Vonast til að uppruni smitanna finnist þótt óaugljós sé

Það þýðir reyndar að hópsýkingin er sennilega ekki eins beininnflutt og við héldum, þó að þar séu einstaklingar sem eru nýkomnir til landsins en þeir hafa sennilega smitast hér á landi. Nú er í rauninni komið í ljós að heimkomusmitgát hefði ekki endilega gripið þetta,“ segir Kamilla, sem vonast til þess að hægt verði að finna mögulegan sameiginlegan uppruna smitanna sem ekki hafi verið augljós hingað til, með því að ræða við alla reynst hafa smitaðir í hópsýkingunni.

Vonandi koma einhverjar nánari skýringar, en það er ekki alveg öruggt. Það að við getum ekki fundið tengingu milli einstaklinganna er áhyggjuefni, en mögulega kemur svo í ljós, fyrst það eru fleiri smitaðir eftir því sem það fást frekari upplýsingar frá þeim sem á eftir að klára að tala við. Rakningarteymið er núna á fullu við að reyna að rekja ferðir fólksins til að finna mögulega sameiginlega fleti.“

Kamilla segir stöðuna endurmetna daglega eftir því hvaða upplýsingar komi fram hverju sinni og hvort tilefni sé að gera hlutina öðruvísi, en sem standi sé áhersla lögð á að minna fólk á þær ráðstafanir sem eru þegar í gildi, því við séum jú enn á hættustigi. „Svo er alveg hugsanlegt að það þurfi að skoða þetta eitthvað nánar þegar við erum búin að fara vel yfir þessi smit sem hafa verið að koma upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert