Kona á þrítugsaldri hefur verið dæmd í tveggja ára og níu mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot á tveggja ára tímabili gegn pilti sem var sambúðarbarn hennar, þ.e. hún var sambúðarkona föður piltsins. Þá er hún jafnframt fundin sek um að rangar sakargiftir, en konan kærði piltinn upphaflega og sagði hann hafa ítrekað nauðgað sér og áreitt kynferðislega á umræddu tímabili.
Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í síðustu viku en dómurinn var birtur í dag.
Í dóminum er rakið að pilturinn hafi flutt á heimili föður síns árið 2015. Var hann þá 16 ára gamall. Fljótlega eftir að hann flutti á heimilið tókst góður vinskapur milli þeirra, en konan var sex árum eldri en pilturinn. Sagði konan fyrir dómi að hún þjáðist að félagsfælni og að tímabili hefði pilturinn verið „nánast eini vinur“ hennar.
Fram kemur að þau hafi farið saman í sund, ljós, ræktina og út að borða. Þá sótti hún hann einnig í skólann.
Bæði staðfesta þau að kynferðissamband þeirra hafi varað í langan tíma og í mörg skipti, en konan sagði þau hafa stundað samfarir í um 15 skipti og 15-20 skipti til viðbótar átt annars konar kynferðismök. Sagði pilturinn að skiptin væru um 100 talsins.
Framburður þeirra er þó mismunandi um hvernig kom að kynferðissambandi þeirra. Bæði staðfesta að fyrsta skiptið hafi átt sér stað þegar faðirinn fór erlendis á fótboltaleik, en konan sagði að henni hafi gengið illa að sofna og beðið piltinn um að sitja hjá sér meðan hún sofnaði. Þegar hún hafi svo vaknað hafi pilturinn verið að strjúka henni og svo hafi hann reynt að stinga fingrum í leggöng hennar. Við það hafi hún frosið og hann í framhaldinu nauðgað henni.
Sagði konan að það sama hafi gerst aftur næsta dag og í framhaldinu hafi svipaður aðdragandi verið að samförum þeirra. Sagðist hún aldrei hafa tekið virkan þátt í kynmökunum eða gefið samþykki sitt. Sagði hún að með því að „hafa í reynd ekki verið á staðnum eða tekið þátt í kynmökum“ hefði hún gefið piltinum til kynna að hún vildi þetta ekki.
Pilturinn sagði hins vegar aðra sögu og sagði að fyrst hafi hún komið upp í rúm til hans eftir að hafa komið drukkin heim af djamminu. Hafi hún þá sagt honum að setja höndina á maga sinn. Ekkert meira gerðist það kvöld, en eftir þetta urðu þau nánari og kynferðislegri. Þannig hafi þau farið að kúra saman og hann hafi ítrekað nuddað hana. Fyrsta skiptið hafi svo verið þegar faðir piltsins fór á fyrrnefndan fótboltaleik.
Hafnaði pilturinn því að konan hefði verið sofandi er samfarirnar hófust. Hún hafi meðal annars tekið virkan þátt í kynmökunum og þá hafi hún einnig gefið sér skilaboð, þó hann hafi verið virkari í að gera hlutina. Staðfesti hann að hún hefði oft verið með lokuð augun þegar þau áttu í kynferðislegum samskiptum, en pilturinn taldi að konan „hefði þá verið að þykjast vera sofandi í því skyni að hjála sér með samvisku sína.“ Hún hefði samt sem áður hreyft sig og tekið virkan þátt í samförunum.
Pilturinn staðfesti að hann hefði jafnan átt frumkvæði að samskiptum þeirra á samfélagsmiðlum um hvort þau vildu kúra saman og sagði hann að þýðing þess væri meiri en að kúra. Hins vegar taldi dómurinn einnig dæmi um að konan hefði haft frumkvæði að slíkum samskiptum.
Málið komst upp eftir að konan dró í land með sambandið. Var pilturinn í tilfinningalegu uppnámi og sagðist hafa ætlað að taka eigið líf vegna ástarsorgar. Sagði hann vinkonu sinni frá þeirri fyrirætlan sinni en hún gerði lögreglu viðvart sem hafði samband við foreldra hans sem sóttu piltinn. Í kjölfarið viðurkenndi hann að bera tilfinningar til konunnar.
Leiddi þetta til mikilla átaka og uppnáms innan fjölskyldunnar, en nokkru eftir að upp komst um málið sakaði konan piltinn um að hafa nauðgað sér ítrekað og áreitt kynferðislega. Kærði hún málið til lögreglu sem felldi málið niður eftir rannsókn. Kærði hún þá niðurstöðu til ríkissaksóknara sem einnig felldi málið niður. Ári síðar kærði svo pilturinn málið til lögreglu og leiddi það til dómsmálsins sem nú var dæmt í.
Pilturinn sagði að ásökunin um nauðgun hafi verið „rosalega stórt sjokk,“ en hann viðurkenndi í framhaldinu fyrir konunni og öðrum, meðal annars móður sinni að hann hefði nauðgað konunni. Sagðist hann þá hafa verið verið „tilbúinn að mála sig sem skrímsli.“
Reiddist faðir piltsins honum mikið fyrir þetta og fyrir dómi vitnaði hann um að ekki gæti hafa verið ástarsamband milli þeirra, hann hefði vitað af því. Kom jafnframt fram að ekkert samband væri í dag þeirra á milli, en faðirinn kallaði soninn lygasjúkan og í samtali við sérfræðing á geðdeild sagði hann son sinn „sykkopata.“
Þegar pilturinn fór til Stígamóta og síðar á geðdeild voru hins vegar viðbrögð sérfræðinga þar þau að hann væri ekki gerandi í málinu heldur fórnarlamb. Þannig hafi geðlæknir meðal annars ekki trúað skýringum hans fyrst um að hann hefði nauðgað konunni og síðar hafi pilturinn staðfest að ástarsamband hafi verið á milli þeirra. Hjá Stígamótum var jafnframt bent á að frásögn piltsins um að hann hefði nauðgað konunni gæti ekki passað.
Bæði móðir piltsins og föðurmóðir hans báru vitni um að samskipti konunnar og piltsins hafi haft einkenni ástarsambands. Sagði amman meðal annars að þau hafi hoppað saman á trampólíni og farið saman í bíó. Hins vegar hafi aldrei verið togstreita á milli þeirra.
Vitnaði geðlæknir piltsins til um að hann hafi í meðferð hjá sér í fjölmörg skipti slegið í og úr með sök sína og fundist hann samábyrgur. Sagði geðlæknirinn það algengt í málum sem þessum og ekki til þess fallið að draga trúverðugleika hans í efa. Varðandi játningu hans til konunnar um að hann hefði nauðgað henni taldi geðlæknirinn að líta yrði til andlegs ástands hans á þessum tíma. Hann hafi verið örvinglaður og með sjálfsvígshugsanir.
Þá sagði geðlæknirinn að pilturinn væri með mikið samviskubit gagnvart föður sínum, en fyrir dómi sagðist pilturinn gera sér grein fyrir að hann „væri að stinga undan“ föður sínum. „Það væri mjög algengt í málum af þessum toga að þolandinn telji sig bera ábyrgð á sambandinu eða kynferðislegum samskiptum. Gerandi komi því oft inn hjá þolanda að þetta sé litla leyndarmálið þeirra sem ekki megi segja frá. Ef þolandi segi frá muni það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir bæði geranda og þolanda. Þannig dragist þolandi í reynd inn í samsæri þagnarinnar,“ er haft eftir geðlækninum í dóminum.
Sagði hann jafnframt að pilturinn hefði verið óþroskaður og barnalegur og ekki með neina kynferðislega reynslu áður, en ástfanginn af konunni og reynt að verja hana.
Í niðurstöðu dómsins er horft til hundruð samskipta piltsins og konunnar á Facebook og segir þar að ekkert renni stoðum undir framburð konunnar um að sambandið hafi verið án hennar samþykkis. „Þykja þau renna frekari stoðum undir framburð piltsins og annarra vitna,“ segir í dóminum og eru skýringar konunnar sagðar ótrúverðugar.
Í dóminum segir jafnframt að pilturinn hafi verið einlægur og samkvæmur sjálfum sér í framburði hjá lögreglu og fyrir dómi og er tekið fram að ekkert bendi til þess að hann sé lygasjúkur og þær lygar sem nefndar hafi verið í dómshaldinu séu ekki meiri en gengur og gerist almennt.
Varðandi þann ákærulið sem snýr að röngum sakargiftum segir dómurinn að ekkert bendi til þess að þær séu á rökum reistar. „Þá þykja ásakanir ákærðu um meintar nauðganir brotaþola sem fyrr á engan hátt samrýmast framlögðum samskiptum ákærðu og brotaþola á samskiptamiðlinum Facebook.“
Þykir sannað að konan hafi brotið gegn piltinum með því að hafa margsinnis haft samræði og önnur kynferðismök við sambúðarbarn sitt. Segir að kæra konunnar hafi jafnframt leitt til mikillar andlegrar vanlíðan piltsins. Tekið er fram að hún hafi mátt gera sér grein fyrir að háttsemin væri til þess fallin að valda piltinum alvarlegu andlegu tjóni.
Var konan sem fyrr segir dæmd í tveggja ára og níu mánaða fangelsi og til að greiða piltinum 700 þúsund í miskabætur, en það er sama upphæð og farið var fram á. Þá er hún dæmd til að greiða 2,8 milljónir í sakarkostnað.