Fóru í gegnum sjö metra háan skafl

Skaflinn var þokkalega stór.
Skaflinn var þokkalega stór. Ljósmynd/Grétar Ásgeirsson

Eyjafjarðarleið (F821) á hálendinu var opnuð föstudaginn 24. júlí eða rétt fyrir helgi. Vegagerðarmenn þurftu að fara í gegnum sjö metra skafl til að opna veginn, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Leiðin er ein þriggja leiða af Sprengisandsleið norðan megin. 

Það tók einn og hálfan dag að moka í gegnum skaflinn sem í reynd er snjóflóð við Hrauntanga á Eyjafjarðardal. Flóðið var 75 metra langt og 7 metrar niður á veg þar sem mest var. 

Þessi kafli hálendisvega var einn síðasti til að verða opnaður en enn á eftir að opna í Fjörður eða veg F839. Það er ekki óvenjulegt að Eyjafjarðarleið opni svona seint að sumri en fyrst hefur leiðin opnast 28. júní, en í síðasta lagi einmitt þennan sama dag og í ár eða 24. júlí, sé tekið mið af opnunum síðustu fimm til sex ára.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert