Stórhýsi í landi Reykjaness í Grímsnesi, sem reist var á vegum Íþróttabandalags Reykjavíkur, hefur staðið hálfbyggt og fokhelt í tæplega fjörutíu ár.
Fyrirætlanir um að útbúa þarna æfingabúðir fyrir íþróttafélög í borginni runnu út í sandinn og framkvæmdum var hætt árið 1983.
Húsið í Reykjanesi er alls um 1.400 fermetrar og aldrei varð af því að reisa á staðnum íþróttahús eða koma upp sundlaug og keppnisvöllum eins og til stóð þegar jörðin var keypt í fyrrnefndum tilgangi árið 1971.
Einkaaðilar keyptu Reykjanesið fyrir rúmlega 20 árum. Þeir nýta jörðina en húsið hefur verið aukaatriði í málinu. Ýmsar hugmyndir hafa þó verið um nýtingu þess, svo sem að breyta því í munkaklaustur eða dvalarheimili aldraðra. Þá sýndi Ástþór Magnússon athafnamaður húsinu á sínum tíma áhuga og vildi starfrækja þar friðarsetur, að því er fram kemur í umfjöllun um mannvirki þessi í Morgunblaðinu í dag.