Skipulagsstofnun telur að fyrirhuguð efnistaka í Efri-Staf í Seyðisfjarðarkaupstað sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki vera háð mati á umhverfisáhrifum.
Framkvæmdin er háð framkvæmdaleyfi Seyðisfjarðarkaupstaðar. Aðalheiður Borgþórsdóttir bæjarstjóri segir í Morgunblaðinu í dag að framkvæmdin hafi fengið jákvæða umsögn hjá sveitarfélaginu. Reikna megi með því að framkvæmdaleyfið verði gefið út. Hún segir að ekki sé um marga staði að ræða í firðinum þar sem Seyðfirðingar geta náð í efni.
Efnistökusvæðið er í klapparholti austan Stafdals í norðanverðum Efri-Staf í Seyðisfirði. Ætlunin er að taka þar um 45.000 rúmmetra af efni á 9.000 fermetra svæði. Fast berg verður losað með sprengingum einu sinni til tvisvar á ári í 3-4 daga í senn. Ætlunin er að nota efnið til byggingarframkvæmda og hafnargerðar. Áætlaður vinnslutími er tíu ár.
Að sögn framkvæmdaraðila verða helstu áhrif framkvæmdarinnar á ásýnd. Efnistökusvæðið sést frá Seyðisfjarðarvegi en gera á mön við suðurbrún námusvæðisins til að draga úr neikvæðum áhrifum á ásýnd og landslag.