Tekist var á fyrir yfirskattanefnd um hvort enduráætlun ríkisskattstjóra teldist lögum samkvæm. Einkahlutafélag sem skipti um hendur hafði 50-faldast í virði á tveimur dögum.
Í úrskurði yfirskattanefndar frá 8. júlí sl. er rakið mál einstaklings sem átti helmingshlut í litlu ferðaþjónustufyrirtæki. Í kaupsamningi dagsettum 6. febrúar 2014 var hlutur mannsins seldur til annars félags í hans eigu á 250 þúsund krónur. Degi síðar var sami hlutur seldur til ótengdra aðila á 12,5 milljónir.
Í kjölfarið fór ríkisskattstjóri fram á skýringar á því hvers vegna hluturinn hafði hækkað svo mikið á jafn stuttum tíma, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Í svari til skattstjóra kom m.a. fram að félagið hefði ekki átt neinar efnislegar eignir heldur hefðu verðmætin falist í „vinnuframlagi og persónu“ eiganda félagsins. Skömmu eftir söluna hefðu fjársterkir aðilar verið að kaupa upp ferðaþjónustufyrirtæki hér á landi, sem hefði verið „ófyrirséður vendipunktur“ en félagið hefði við þetta „hagnast ágætlega“.