Tvö nýju smitanna ótengd öðrum

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir á blaðamannafundi almannavarna.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir á blaðamannafundi almannavarna. Ljósmynd/Lögreglan

Ekki hefur tekist að tengja tvö þeirra innanlandssmita sem greindust í gær við önnur samfélagssmit sem greinst hafa undanfarið. Vonast er til þess að raðgreining á veirunni sem fannst í þessum einstaklingum varpi nánara ljósi á hvaðan þau eru upprunnin.

Þetta kom fram í máli Kamillu Sigríðar Jósefsdóttur, staðgengils sóttvarnalæknis, á upplýsingafundi almannavarna. Til umræðu er að ráðast í hertar aðgerðir, en fundað verður með heilbrigðisráðherra um stöðuna síðar í dag.

Þar rakti hún þau smit sem upp hafa komið undanfarnar vikur, en raðgreining á veiru er tengist hópsýkingu sem komin er upp á Akranesi, þar sem sjö sambýlingar hafa allir greinst, og hjá einstaklingi sem var viðstaddur Rey Cup knattspyrnumótið um helgina hefur leitt í ljós sama raðgreiningarmynstur. Þá var frjálsíþróttamaður sem greindist helgina á undan með skylt raðgreiningarmynstur.

Viðbúið að fjölgi í sóttkví næstu daga

Í sömu viku var greint frá smitkeðju þar sem erlendur ferðamaður smitaði leiðsögumann. Nú hefur komið í ljós að maki leiðsögumannsins er einnig smitaður, sem og systkini eins úr hópsýkingunni á Akranesi.

173 eru í sóttkví en smitrakning stendur enn yfir og má búast við að fjölgi í sóttkví í dag og næstu daga.

Kamilla sagði mikilvægt að fara vel yfir allar reglur og leiðbeiningar og að almenningur færi í naflaskoðun varðandi sínar einstaklingsbundnu sóttvarnir, auk þess sem hún hvatti vinnustaði, þjónustufyrirtæki og verslanir til að skoða sína stöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert