Rekstraraðilar skemmtistaðarins B5 íhuga nú viðræður við stjórnvöld varðandi mögulegan styrk vegna rekstrarumhverfis skemmtistaða og tekjutaps í kjölfar samkomutakmarkana vegna kórónuveirufaraldursins.
„Það eru að koma kröfur um að eiga samtal við stjórnvöld til að fá alvöruaðstoð. Að við förum í alvörusamtal um hvað sé hægt að gera svo að bransinn þurrkist ekki út. Þannig að allir staðir fari ekki á andlitið og þurfi allir að byrja á nýjum kennitölum, sem við viljum ekki. Við viljum bara að þetta virki.“
Þetta segir Jónas Óli Jónasson, meðeigandi skemmtistaðarins B5 við Bankastræti, þar sem frestun á tilslökunum samkomutakmarkana muni óneitanlega hafa slæm áhrif á rekstrarumhverfi skemmtistaða, þar sem mest umferð er eftir miðnætti á kvöldin. Hann segir að auknar kröfur um stuðning frá ríkinu hafi komið fram í stéttinni.
„Þetta eru vonbrigði en það eru allir að reyna að gera sitt besta. Við skiljum það,“ segir Jónas Óli, í ljósi þess að tilslökunum hafi verið frestað um tvær vikur, eins og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra hefur staðfest í samtali við mbl.is. Þá kom einnig fram á fundi almannavarna í dag að ekki væri útilokað að herða þyrfti aðgerðir.
„Staðurinn og skemmtistaðir almennt höndla bara visst margt fólk á hverjum klukkutíma. Bara það að lengja tímann hjá okkur gerir helling en eins og er er ekki heimilt að hafa opið á okkar háannatíma,“ segir hann.
Tilslakanir samkomutakmarka taka gildi 18. ágúst að öllu óbreyttu, þar sem fjöldatakmarkanir verða rýmkaðar úr 500 í 1.000 og afgreiðslutími veitinga- og skemmtistaða frá kl. 23 til miðnættis.