Flugsamgöngur og heimsfaraldur kórónuveiru voru til umræðu á fundi ríkisstjórnarinnar í gær.
„Þetta snerist fyrst og fremst um þá ánægjulegu staðreynd að það eru margir sem vilja koma til Íslands,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. Hann segir að ríkisstjórnin hafi farið yfir „hvert útlitið væri í fluginu núna í ágúst, hve margir eru líklegir til að koma og þá frá hvaða löndum“.
Sigurður segir mikilvægt að áfram sé gætt að því að viðhalda skimun fyrir veirunni á landamærum. „Við erum með ákveðna greiningargetu og sjáum það núna að við þurfum að einbeita okkur meira að innanlandsgreiningum. Þá þurfum við að passa upp á að geta viðhaldið skimun á landamærum,“ segir Sigurður.