Nokkur ný innanlandssmit hafa greinst eftir hádegi í dag. Þetta staðfestir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, í samtali við mbl.is.
Nákvæmur fjöldi liggur ekki fyrir en smitin eru „á milli fimm og tíu“ að sögn Kamillu og sum þeirra með þekktar tengingar við eldri smit, en önnur ekki. Enn er einn einstaklingur inniliggjandi á Landspítala vegna kórónuveirunnar, en sá er eldri borgari og því fyrir í áhættuhópi, segir Kamilla.
Tíu manns greindust með kórónuveiruna innanlands í gær en niðurstöður úr raðgreiningu þeirra smita liggja nú fyrir. Að sögn Kamillu má hluta þeirra smita rekja til hópsmits sem teygir sig bæði til Akraness og höfuðborgarsvæðisins.