„Við neyðumst til að grípa til þessara ráðstafana,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á upplýsingafundi þar sem hertar aðgerðir vegna kórónuveirunnar voru kynntar. Frá og með hádeginu á morgun mega einungis 100 koma saman og tveggja metra reglan verður aftur innleidd.
Ráðherra sagði að við vildum ekki hafa samfélagið með þessum hætti en vonandi yrði þetta ástand í skamman tíma.
Hún sagði vinnu á landamærum hafa gengið vel og áskoranir snúist um þá Íslendinga sem komi erlendis frá.
„Við erum ekki komin á neyðarstig almannavarna,“ sagði Áslaug. Hún fundar síðar í dag með ríkislögreglustjóra og almannavörnum til að sjá hvort þörf sé á því að fara á neyðarstig aftur.