Geta ekki tryggt tveggja metra reglu og loka

Skemmtistaðurinn B5.
Skemmtistaðurinn B5. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eigendur skemmtistaðarins B5 við Bankastræti hafa ákveðið að gera hlé á starfsemi staðarins fram til 13. ágúst. Jónas Óli Jónasson, meðeigandi B5, segir staðinn ekki geta tryggt tveggja metra regluna samkvæmt nýjum tilmælum heilbrigðisráðherra. 

Fram kom á blaðamanna­fundi stjórn­valda í dag að hert­ar aðgerðir inn­an­lands og á landa­mær­um vegna út­breiðslu kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins taki gildi á há­degi á morg­un. Tak­mörk­un á fjölda sem kem­ur sam­an miðast við 100 ein­stak­linga og tveggja metra regl­an verður skylda. Ná þess­ar nýju ráðstaf­an­ir til 13. ág­úst.

Á meðal þess sem kem­ur fram í til­lög­um sótt­varna­lækn­is sem kynnt­ar voru í dag er að söfn, skemmti­staðir og aðrir op­in­ber­ir staðir geri hlé á starf­semi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eft­ir fjölda­tak­mörk­un­um eða að bil milli ótengdra aðila sé meira en tveir metrar. Þá legg­ur sótt­varna­lækn­ir til að starf­semi sem í eðli sínu fel­ur í sér að gest­ir noti sam­eig­in­leg­an búnað, svo sem íþrótt­astarf og lík­ams­rækt­armiðstöðvar, geri hlé á starf­semi eða sótt­hreinsi slík­an búnað milli not­enda. 

Jónas Óli segir þetta mikið áfall. 

„Við getum ekki haft opið og tryggt tveggja metra regluna þannig við verðum bara að loka. Við gerum út á dansinn, að fólk skemmti sér og dansi saman og það gengur ekki eins og staðan er núna. Það verður bara lokað þangað til við vitum meira,“ segir Jónas. 

„Um leið og við áttum að loka á sínum tíma reyndum við ekki einu sinni að hafa opið heldur bara lokuðum við. Við gerum það bara aftur og förum eftir þeim reglum sem eru settar. Það hefði verið skemmtilegra að ná því að lengja opnunartímann til 12 eftir helgi en að þurfa allt í einu að loka. Flestir í þessum skemmtanaiðnaði eru að upplifa mikil vonbrigði, þessi smit eru ekki að koma upp af því að fólk er að hittast á skemmtistöðum eða börum. Við erum svolítið að fá þetta í andlitið út af öðrum atriðum,“ segir Jónas. 

Orðalagið óskýrt 

Jónas veltir því fyrir sér hvers vegna fyrirmæli til skemmtistaða hafi ekki verið skýrari. 

„Eins og þessu er stillt upp núna, er þetta 100 manns og tveggja metra reglan er viðhöfð, en skemmtistöðum er ekki gert að loka. Þá spyr maður sig hvort að verið sé að búa til eitthvað gat til að þurfa ekki að veita fjárstyrk, hvort að það verði bara „nei, þið hefðuð ekkert þurft að loka,“ þegar við höfum engan kost á öðru,“ segir Jónas. 

„Orðalagið er skrítið, að segja að það megi vera opið þegar það er vitað að skemmtistaðir virka ekki þegar fólk getur ekki dansað saman til að framfylgja tveggja metra reglunni. Af hverju er þetta ekki bara skýrt að skemmtistaðir þurfi að loka?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert