Skemmtikraftar fara hörðum orðum um ferðaþjónustuna

Króli er ekki sáttur með ferðaþjónustuna. Jóhannes Þór segist hafa …
Króli er ekki sáttur með ferðaþjónustuna. Jóhannes Þór segist hafa fullan skilning á stöðu skemmtikrafta. Ljósmynd/Samsett

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segist hafa fullan skilning á þeirri erfiðu stöðu sem fjölmargir skemmtikraftar eru í vegna hertra sóttvarnaaðgerða. Hann bendir þó á að ferðaþjónustan taki engar ákvarðanir. 

Skemmtikraftar af ýmsu tagi hafa lýst yfir vonbrigðum sínum á samfélagsmiðlum í dag í kjölfar þess að stjórnvöld kynntu 100 manna samkomumörk og fleiri sóttvarnaaðgerðir. 

Sumir hafa farið hörðum orðum um ferðaþjónustuna og kenna opnun landamæra um aukna útbreiðslu kórónuveirunnar, meðal annars rapparinn Króli. 


Jóhannes segist finna til með skemmtikröftum og hafa fullan skilning á þeirri stöðu sem þeir eru í, enda hafi ferðaþjónustan ekki síður komið illa út úr faraldrinum. 

„Við höfum auðvitað mikinn skilning á því að skemmtikraftar, tónlistarmenn og aðrir verða mjög illa úti þegar þetta skellur svona á. Við höfum fyllstu samúð með því, enda þekkjum við það mjög vel hvernig þetta getur leikið þá sem eru í atvinnurekstri. Hins vegar er rétt að benda á það þegar bent er á ferðamenn að það hefur ekki komið smit nema frá einum ferðamanni, sem einhverjir þrír að mér skilst hafa smitast af,“ segir Jóhannes. 

„Landið hefur náttúrulega verið opið fyrir þeim sem eiga hér rætur í samfélaginu og það er kannski ekki síður það. Þetta er kannski skiljanleg útrás sem fólk þarf að fá en ég get ekki tekið undir það að þetta sé erlendum ferðamönnum að kenna eða að ferðaþjónustan hafi þrýst á einhverjar opnanir sem ekki hefðu átt að vera. Við höfum bara einfaldlega bent á efnahagslegar afleiðingar og það er svo yfirvalda að taka ákvarðanir um það hvernig hlutirnir eru gerðir. Það er ekki ferðaþjónustunnar að ákveða það,“ segir Jóhannes og bætir við:

„Ég skil að þetta komi mjög illa við fólk í þessum bransa en við bendum jafnframt á að þetta er heldur mikil einföldun á málinu. Það hefur alltaf verið talað um að við þurfum líklega að takast á við aðra bylgju, þó að hún komi kannski fyrr en von var á, en það var kannski bara tímaspursmál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert