„Við vitum ekki hvað smitið er útbreitt“

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á blaðamannafundi í dag.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, segir að aukinn viðbúnaður verði hjá lögreglu í umdæmum um land allt yfir verslunarmannahelgina. Hann brýnir fyrir fólki að það sé verkefni samfélagsins alls að ná tökum á útbreiðslu veirunnar. 

Fram kom á blaðamannafundi stjórnvalda í dag að hertar aðgerðir innanlands og á landamærum vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins taki gildi á hádegi á morgun. Takmörkun á fjölda sem kemur saman miðast við 100 einstaklinga og tveggja metra reglan verður skylda. Ná þessar nýju ráðstafanir til 13. ágúst.

Á meðal þess sem kemur fram í tillögum sóttvarnalæknis sem kynntar voru í dag er að söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkunum eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 2 metrum. Þá leggur sóttvarnalæknir til að starfsemi sem í eðli sínu felur í sér að gestir noti sameiginlegan búnað, svo sem íþróttastarf og líkamsræktarmiðstöðvar, geri hlé á starfsemi eða sótthreinsi slíkan búnað milli notenda. 

Spurður hvers vegna sú ákvörðun var tekin að veita rekstraraðilum val um hvort þeir geri hlé á starfsemi eða ekki, ólíkt því sem var þegar samkomubann tók fyrst gildi í mars, segir Víðir: „Við treystum á það að þetta eru aðilarnir sem vita nákvæmlega hvernig þeirra umhverfi er og þeir verða bara að taka þessar ákvarðanir innan þeirra ramma sem þeir eru að setja, hvort að það sé mögulegt að halda áfram rekstri með einhverjum hætti eða ekki. Við erum að reyna að búa til sveigjanleika með þessu sem er hluti af lærdómnum í þessu ferli, að gefa þeim aðilum sem eru í þessum rekstri kost á að taka slíka ákvörðun.“

Aukinn viðbúnaður um verslunarmannahelgina 

Víðir segir að aukinn viðbúnaður sé hjá lögreglu um land allt vegna verslunarmannahelginnar, en flestum viðburðum hefur verið aflýst. 

„Þessar reglur setja öllum skipulögðum viðburðum miklar skorður. Við hvetjum aðila til að búa ekki til einhvern sýndarsóttvarnahóp og við munum fylgjast vel með öllu slíku. En þarna er mikið undir að aðilar séu ábyrgir í því sem þeir eru að gera og skilji af hverju við erum að gera þetta. Við treystum bara á að það verði þannig að menn hætti við viðburði sem ekki geta farið fram,“ segir Víðir. 

„Lögreglan er með aukinn viðbúnað um allt land og við verðum með eins mikinn viðbúnað og við getum. Við erum líka með lögreglumenn í sumarleyfum eins og aðrir en við erum með þann viðbúnað sem við teljum að þurfi og erum með þann sveigjanleika að bæta í eftir morgundaginn ef við teljum að þess þurfi.“

Þá segir Víðir að talsverðar áhyggjur séu uppi af óskipulögðum samkomum. 

„Ég vil bara beina orðum mínum til unga fólksins að þetta verður öðruvísi verslunarmannahelgi. Það kemur önnur og það verða önnur tækifæri en þessa helgi skulum við bara vera með okkar fólki og vinum heima. Miklar hópamyndanir eru ekki skynsamlegar og það er ekki lögreglumál heldur heilsufarsmál okkar allra. Þó að ungt fólk veikist kannski minna en aðrir verður það að taka ábyrgð, það getur smitað fólk í áhættuhópum og nú verðum við bara að standa saman og fara í gegnum þessa helgi sem sérstökustu verslunarmannahelgi síðustu ára,“ segir Víðir og bætir við: 

„Smithættan er mikil. Við vitum ekki hvað smitið er útbreitt núna. Þróunin með hverjum degi í þessari viku hefur bent til þess að við erum ekki með tök á þess og þess vegna þurfum við að grípa til þessara aðgerða.“

Í lagi að ferðast í litlum hópum 

Spurður hvort almannavarnir séu að ráðleggja fólki að „ferðast innanhúss“ líkt og gert var um páskana, segir Víðir: 

„Við erum að fara ansi nálægt því sem við töluðum um í kringum páskana. Þá hvöttum við fólk til þess að ferðast ekki neitt, en nú teljum við að það sé nú allt í lagi að ferðast svo lengi sem stórir hópar koma ekki saman. Það fyllast auðvitað fljótt tjaldsvæði þar sem eingöngu hundrað manns mega koma saman en að fólk fari í sumarbústað með sínum nánustu er í góðu lagi.“

Þá segist Víðir vonast til þess að ekki þurfi að grípa til frekari aðgerða. 

„Ef að allt gengur samkvæmt áætlunum og allir taka þátt í þessu teljum við að þessar aðgerðir séu nægilegar. Það er alltaf einhver óvissa en við teljum að með samstilltu átaki innan þessa ramma sem við erum að setja núna munum við ná tökum á ástandinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert