Hráefni og vörur veitingastaðanna Barion og Hlöllabáta verða innan fárra vikna fáanlegar í matvöruverslunum.
Þetta staðfestir athafnamaðurinn og eigandi staðanna, Sigmar Vilhjálmsson, í samtali við Morgunblaðið.
Barion-staðirnir eru tveir talsins, annars vegar í Mosfellsbæ og hins vegar úti á Granda. Hafa staðirnir notið gríðarlegra vinsælda en þar má finna mikið úrval fjölbreyttra rétta. Að sögn Sigmars munu landsmenn nú geta reynt fyrir sér í eldhúsinu með Barion-hráefnið.
„Við höfum verið að þróa sósur á Barion, sem fólk mun nú geta nálgast í búðum. Að auki verða hamborgarabrauð og 175 gramma hamborgarakjöt sett inn í búðir í fyrstu umferð. Í framhaldinu höfum við áhuga á að setja inn fleiri vörur,“ segir Sigmar í Morgunblaðinu í dag.