Pétur Hreinsson, Aron Þórður Albertsson Baldur Arnarson
Vilborg Helga Júlíusdóttir, hagfræðingur Samtaka ferðaþjónustunnar, segir nú ólíklegra en áður að hingað komi 63 þúsund ferðamenn í ágúst, líkt og Ferðamálastofa spáði.
Vilborg Helga segir um mikla hagsmuni að tefla enda geti gjaldeyristekjur af rúmlega 60 þúsund erlendum ferðamönnum numið um 11,5 milljörðum króna.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, tekur í sama streng og áætlar að tekjurnar af slíkum fjölda erlendra ferðamanna í ágúst gætu numið 15-16 milljörðum. Af því leiði að helmingsfækkun ferðamanna muni skerða tekjurnar um allt að 8 milljarða.
Vegna aukinnar óvissu í efnahagsmálum sé ólíklegt að sami viðsnúningur verði í haust og eftir að samkomubanni var aflétt í maí.
Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála, segir að ef fram heldur sem horfir séu líkur á gjaldþrotahrinu fyrirtækja í ferðaþjónustu. Þannig geti önnur bylgja kórónuveirusmita reynst umræddum fyrirtækjum of stór biti.
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag segir Sævar Þór Jónsson lögmaður bankana farna að taka bíla og tæki upp í skuldir hjá ferðaþjónustufyrirtækjum.