Grímuskylda og aðrar reglur taka gildi

Hertar aðgerðir á grundvelli tillagna sóttvarnalæknis hafa tekið gildi.
Hertar aðgerðir á grundvelli tillagna sóttvarnalæknis hafa tekið gildi. Ljósmynd/Lögreglan

Hertar aðgerðir stjórnvalda, innanlands og á landamærum, vegna COVID-19 hafa formlega tekið gildi og munu standa yfir í tvær vikur, út 13. ágúst næstkomandi. Nú mega að hámarki 100 koma saman og aftur orðið skylda að halda tveggja metra fjarlægð.

Aðgerðirnar voru samþykktar af ríkisstjórn í gær eftir að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafði skilað tillögum um þær til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.

Grímuskylda í fyrsta sinn

Íslendingar þekkja flestar þær reglur sem nú hafa tekið gildi en eina nýjung var að finna í tillögum sóttvarnalæknis sem er skyldan til að bera andlitsgrímu í þeim aðstæðum þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga.

Á grímuskyldan til dæmis við í almenningssamgöngum, á hárgreiðslustofum og starfsemi sem krefst nálægðar. Sundlaugum og veitingastöðum er gert að tryggja að tveggja metra bil sé á milli fólks í öllum rýmum með fjöldatakmörkunum í samræmi við stærð hvers rýmis.

Þá er það lagt til að starfsemi „sem í eðli sínu felur í sér að gestir noti sameiginlegan búnað“ geri hlé eða sótthreinsi búnaðinn milli notenda. Þetta á til dæmis við um líkamsræktarstöðvar og spilasali.

Efldar aðgerðir á landamærum

Þá hefur einnig verið hert á reglum um komur til landsins en héðan í frá fara allir sem koma hingað frá áhættusvæðum og ætla að dvelja hér á landi í tíu daga eða lengur í tvöfalda sýnatöku. Þá fyrstu við komuna til landsins og hina síðari á degi 4 til 6 – ef fyrra sýnið er neikvætt.

Þá hefur því verið haldið opnu að mögulega þurfi að herða ofangreindar ráðstafanir enn frekar ef þær bera ekki árangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert