Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist einkum hafa hugsað um það við myndun ríkisstjórnarinnar árið 2017 að verulegt ákall almennings hafi verið eftir stöðugleika í stjórnarfari, sem stjórnmálamenn urðu að svara.
„Til þess að ná því fram, þá þurftum við, sem að stjórninni stóðum, að hafa trú á því að við gætum leyst málin við ríkisstjórnarborðið með fólkinu sem við vorum að vinna með, með öllum þess kostum og göllum,“ segir Katrín í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins. „Núna erum við að sigla inn í síðasta vetur kjörtímabilsins og ég tel að okkur hafi auðnast að ná fram meginmarkmiði okkar um stöðugleika í stjórnarfari. Eins horfi ég á þau stefnumál, sem við höfum lagt mesta áherslu á, og get ekki verið annað en ánægð með árangurinn. Loks má nefna að ríkisstjórnin þurfti fyrirvaralaust að takast á við tröllaukið og algerlega óvænt verkefni, en ég er ekki í nokkrum vafa um að þá kom sér vel að við höfðum vandað til verka við ríkisstjórnarmyndunina og náð saman sem manneskjur.“
Katrín segir að endurreisn efnahags þjóðarinnar verði helsta verkefni stjórnvalda á næstu misserum.
„Ég tel að okkur hafi tekist vel upp við að verja viðkvæmt atvinnulíf þegar faraldurinn gekk yfir í vor og um leið að afstýra viðvarandi fjöldaatvinnuleysi. Við höfum kynnt fjölþættar aðgerðir í framhaldinu og þær verða vafalaust fleiri.
En það þýðir ekki að allt annað sitji á hakanum. Við munum að sjálfsögðu áfram sinna öðrum verkefnum ríkisstjórnarinnar áfram og þar á meðal þeim málum, sem við settum á oddinn í málefnasamningnum,“ segir Katrín í Morgunblaðinu í dag.