Aðeins einn af 13 í sóttkví

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Arnþór Birkisson

Aðeins einn þeirra 13 sem greindust með kórónuveiruna í gær var í sóttkví. Tvö smitanna voru á Norðurlandi en hin á höfuðborgarsvæðinu að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. 

Þórólfur sagði á upplýsingafundi með fjölmiðlum í dag að raðgreining sýni að allt bendi til að tveir veirustofnar séu í gangi hér á landi. Vel hefur gengið að ná utan um annað hópsmitið en hitt er á flugi víðs vegar um landið. Hann segir að oft sé erfitt að tengja einstaklinga saman og ljóst að um dreifða sýkingu á faraldsfæti er að ræða. 

Þeir sem eru í sóttkví eru langflestir á höfuðborgarsvæðinu en eru annars dreifðir um allt land nema á Austurlandi. Af þeim sem fóru í sýnatöku hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í gær voru 5% með jákvætt sýni. 

Frá 15. júní hafa 70 einstaklingar greinst hér á landi með COVID-19 og eru flest smit komin frá innlendum sem og erlendum ferðamönnum. 

Þórólfur segir að enginn sé á gjörgæslu en aðeins einn er alvarlega veikur og dvelur á Landspítalanum. Hann segir að það sé jákvætt að aðeins einn hafi veikst alvarlega en minnir á að það taki yfirleitt viku til tíu daga að fara frá fyrstu einkennum COVID-19 til alvarlegra veikinda. 

Að sögn Þórólfs má búast við því að næstu daga verði tilkynnt um ákveðinn fjölda af nýjum smitum á hverjum degi en það taki eina til tvær vikur að sjá árangur af þeim hertu aðgerðum sem gripið var til á föstudag.

Frá 15. júní hafa komið rúmlega 100 þúsund farþegar hingað til lands og sýni verið tekin frá um það bil 65 þúsund einstaklingum. Af þeim hafa 26 verið með virkt smit en um 100 hafa verið með gömul smit. 

Af þeim 2.700 sýnum sem Íslensk erfðagreining hefur tekið hafa tveir greinst með COVID-19 og að sögn Þórólfs bendir þetta til að smitin séu ekki mjög útbreidd en ákveðið áhyggjuefni sé að uppruni þeirra sé óljós og þau dreifð. Þetta gæti bent til að dreifingin sé meiri en við héldum að sögn Þórólfs. 

Bæði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur lögðu mikla áherslu á einstaklingsbundnar sóttvarnir í máli sínu á upplýsingafundinum. Á vefnum covid.is er bæði að finna upplýsingar á mörgum tungumálum sem og myndskeið þar sem farið er yfir þessi mál.

Þú getur varið þig og aðra gegn smiti með því að fylgja þessum ráðum

Þvoðu hendur þínar reglulega með vatni og sápu, minnst 20 sekúndur í hvert skipti.
Ef vatn og sápa eru utan seilingar er gott að nota handspritt, til dæmis þegar þú hefur notað greiðslukort eða komið við fleti sem margir snerta, svo sem hurðarhúna. Á vef landlæknis eru góðar upplýsingar um hvernig gæta má varúðar gegn sýkingum.

Ef þú þarft að hósta eða hnerra skaltu nota olnbogabótina eða einnota klúta. Þannig kemurðu í veg fyrir að úði fari á hendur. Gættu þess að hósta eða hnerra ekki á aðra.

Takmarkaðu náin samskipti við annað fólk, t.d. handabönd og faðmlög. Finndu aðrar leiðir til þess að heilsa sem ekki fela í sér snertingu.

Reyndu að bera ekki hendur upp að andlitinu, sérstaklega augum, nefi og munni.
Þrífðu oftar fleti sem eru mikið notaðir.

Ef þú ert eldri borgari eða með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma er ráðlagt að halda sig fjarri mannamótum og fjöldasamkomum.

Forðastu að umgangast fólk sem er með einkenni sem minna á flensu.

Eftirfarandi ráðstafanir eru í gildi innanlands til eflingar sóttvarna

Takmörkun á fjölda einstaklinga sem koma saman miðist við 100 fullorðna. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin.

Hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi verði viðhöfð sú regla að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga en að sú ráðstöfun verði ekki lengur valfrjáls.

Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga með fjöldatakmörkun verði krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Þetta á t.d. við um almenningssamgöngur, þ.m.t. innanlandsflug og farþegaferjur, og starfsemi, s.s. hárgreiðslustofur og nuddstofur.

Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er mælt með almennri grímunotkun á almannafæri og að rök og skítug gríma gerir ekkert gagn og getur aukið sýkingarhættu. Jafnframt gerir einnota gríma, sem notuð er oftar en einu sinni, ekkert gagn og getur einnig aukið sýkingarhættu. Hlífðargríma, sem hylur ekki bæði nef og munn eða er höfð á enni eða undir höku, gerir heldur ekkert gagn.

Andlitsgrímur sem notaðar eru utan heilbrigðisþjónustu ættu að lágmarki að uppfylla kröfur sem fram koma í vinnustofusamþykkt evrópsku staðlasamtakanna CEN.

Vinnustaðir, opinberar byggingar, verslanir og þjónustufyrirtæki sem eru opin almenningi skipuleggi starfsemi sína í samræmi við ofangreint og tryggi að ekki séu fleiri en 100 einstaklingar í sama rými og að í minni rýmum séu ekki fleiri en svo að hægt sé að tryggja 2 metra fjarlægð milli einstaklinga.

Verslanir, opinberar byggingar og þjónustufyrirtæki sem eru opin almenningi þurfa að: tryggja aðgang að handsótthreinsi fyrir almenning og starfsmenn við innganga og í grennd við yfirborð sem margir snerta s.s. snertiskjái og afgreiðslukassa, sinna vel þrifum og sótthreinsun yfirborða sem margir snerta eins oft og unnt er og minna almenning og starfsmenn á einstaklingssóttvarnir með merkingum og skiltum.

Sundlaugar og veitingastaðir þurfa að tryggja að gestir geti haft 2 metra bil á milli sín í öllum rýmum með fjöldatakmörkun í samræmi við stærð hvers rýmis.

Rekstraraðilar starfsemi, sem í eðli sínu felur í sér að gestir noti sameiginlegan búnað, s.s. íþróttastarf, líkamsræktarstöðvar, spilakassar og spilasalir, geri hlé á starfsemi eða sótthreinsi slíkan búnað milli notenda.

Söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 2 metrum.

Afgreiðslutími skemmti- og vínveitingastaða verði áfram til kl. 23:00.

Aðgerðir á landamærum

Notkun tvöfaldrar sýnatöku, við komu og á degi 4-6 hefur verið útvíkkuð.

Allir sem til landsins koma frá áhættusvæðum og dvelja hér 10 daga eða lengur fara í fyrri sýnatöku á landamærum og viðhafa í kjölfarið heimkomusmitgát þar til niðurstaða fæst úr seinni sýnatöku.

Hvað fellur ekki undir samkomubann? Samkomubannið nær ekki til alþjóðaflugvalla eða alþjóðahafna, flugvéla eða skipa.

Hvatt er til öflugra sóttvarnaráðstafana og að rekstraraðilar grípi til ýtrustu ráðstafana til að minnka möguleika á smiti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert