Ásælumst bóluefni sem gefa góða raun

Þórólfur Guðnason á blaðamannafundi almannavarna í dag.
Þórólfur Guðnason á blaðamannafundi almannavarna í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ómögulegt að segja til um það nú hvaða fyrirheit bóluefnisrannsóknir Rússa gefi. Stjórnvöld þar í landi hafa tilkynnt að þau hyggist byrja að bólusetja íbúa í stórum stíl í október en sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, Anthony Fauci, hefur viðrað efasemdir um að bóluefnið hafi verið prófað nægilega til að hægt sé að hefja bólusetningu svo snemma. 

„Ég hef ekki neinar upplýsingar um þetta bóluefni eða hvaða rannsóknir liggja þar að baki því að Rússar ætli að fara að bólusetja mjög snemma. En ef þeir framleiða bóluefni sem er vel rannsakað og sýnir sig að er bæði virkt og öruggt þá munum við örugglega ásælast það líka,“ sagði Þórólfur á blaðamannafundi almannavarna í dag.

Íslensk stjórnvöld eiga í samstarfi við Norðurlöndin og Evrópusambandið, annars vegar, og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina hins vegar um verkefni sem styðja við þróun og réttláta dreifingu bóluefnis á milli landa og segir Þórólfur að málefnið sé því í höndum þeirra aðila fyrir hönd þjóða sem taka þátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert